Ís­land sendi, rétt eins og undan­farin fjögur ár, öflugt lið til keppni á heims­bikar­mótið Dance World Cup sem er í fullum gangi í San Sebastian á Spáni.

„Keppnin var sett á föstu­daginn með mikilli skrúð­göngu kepp­enda og að­stand­enda. Ís­lenska liðið vakti mikla at­hygli í göngunni enda glæsi­legur hópur, alls um 300 manns, kepp­endur, kennarar, fjöl­skyldur og skipu­leggj­endur,“ segir Hrefna Hall­gríms­dóttir, sem auk þess að vera blaða­full­trúi alls hópsins fylgir Dans­hópnum Dass sem keppir fyrir hönd List­dans­skóla Ís­lands.

Hrefna segir að eins og undan­farin fjögur ár sendi Ís­land öflugt lands­lið að undan­genginni undan­keppni í Borgar­leik­húsinu fyrr á árinu. „Nú hafa ís­lensku dans­skólarnir myndað sterkt lið, Team Iceland, þar sem keppt er í ó­líkum stílum bæði í ein­stak­lings­keppni sem og smærri og stærri hópum.“

Aðalbjörg Ósk, Andrea Ísold, Bryndís Björk, Emma Rún, Freyja Marý, Heiðrún Lind, Katla Dröfn, Rebekka Dagbjört, Sonja Rós og Valgerður Pálína skipa hópinn frá Danskompaníi í Reykjanesbæ sem vann gullverðlaun fyrir atriðið Yfir Vestfirðina.
Mynd/Dance World Company

Ó­metan­legar minningar

Hrefna telur upp nokkra keppnis­flokka til dæmis um fjöl­breytnina en þar á meðal eru klassískur ballett, djass­ballett, nú­tíma­dans, hip hop og „street dance“ svo eitt­hvað sé nefnt.

„Keppni eins og þessi er gríðar­lega mikil­vægur vett­vangur fyrir unga ís­lenska dansara til að fá tæki­færi til að hitta, kynnast og máta sig við um­heiminn og jafn­aldra frá öllum heiminum þegar þau sam­einast í listinni þvert á trú, þjóð­erni, kyn eða húð­lit.“

Hrefna segir þannig mikil vin­áttu­bönd myndast þar sem í listinni „er svo mikið verið að vinna með til­finningar og hér gefst þeim kostur á að gráta og hlæja og styðja og vera studd af glæ­nýjum vinum og sam­kepp­endum hvaða­næva að og það eru ó­metan­legar minningar að taka út í lífið.“

Ís­lenska liðið vakti mikla at­hygli í göngunni enda glæsi­legur hópur, alls um 300 manns, kepp­endur, kennarar, fjöl­skyldur og skipu­leggj­endur.
Mynd/Emma Baz

Frá­bær stemning

Hrefna segir stemninguna í San Sebastian frá­bæra og mikinn hug í ís­lenska liðinu og fylgdar­liði þess. „Keppni hefst klukkan átta á morgnana og stendur til tíu á kvöldin og Ís­lendingarnir allir reyna að mæta í höllina þegar ís­lensku kepp­endurnir eru á gólfinu.“

Hrefna segir ein brons­verð­laun og eitt gull þegar komin í hús en hópur ungra dansara úr dans­skólanum Dans­kompaní í Reykja­nes­bæ hreppti gullið á sunnu­daginn fyrir at­riðið Yfir Vest­firðina í flokki smærri dans­hópa barna.

Hins vegar varpaði það nokkrum skugga á gleði ís­lenska hópsins á sunnu­daginn þegar flugi stórs hóps dansara frá JSB var af­lýst. Hrefna segir þó alla á staðnum strax hafa lagst á eitt til að „tryggja það að blessuð börnin nái í tíma“ og vonin um að það takist var heldur að glæðast þegar Frétta­blaðið heyrði í Hrefnu í gær.

Hægt er að fylgjast með ís­lenska liðinu á Face­book og Insta­gram undir @dwciceland.

Tilfinningarík sigurstundin hjá gullverðlauna hópnum.
Mynd/Aðsend
Hrefna segir keppni eins og þessa gríðar­lega mikil­vægan vett­vang fyrir unga ís­lenska dansara til að fá tæki­færi til að hitta, kynnast og máta sig við um­heiminn og jafn­aldra frá öllum heiminum.
Fréttablaðið/Ernir