Daði Freyr Guðjónsson og Fanney Björg Gísladóttir eru fyrsta dansparið til þess að sýna dans í flokknum kennari/nemandi en slíkt er vel þekkt erlendis. „Jájá, við vorum að brjóta ísinn. Þetta er í fyrsta skipti sem svona par sést hérna heima,“ segir Fanney í samtali við Fréttablaðið.

Fanney, sem verður 66 ára í apríl, byrjaði að æfa dans af fullri alvöru 2016 og nýtur nú leiðsagnar dansherrans unga sem er jafnaldri elsta barnabarns hennar. „Ég er alger amatör. Þetta er mjög vinsælt erlendis en þetta hefur ekki verið gert áður hérna heima.“

Fanney og Daði Freyr kepptu í flokki kennara og nemanda, fyrst íslenskra danspara, í Blackpool á Englandi í janúar og stóðu sig prýðilega. „Við dönsuðum undanúrslit bæði í suðuramerískum og samkvæmisdönsum og enduðum í 9. sæti í suðuramerískum af 23 skráðum pörum og 12. sæti af 25 í hinum. Ég er mjög sátt við það,“ sagði Fanney, sem starfar sem leiðbeinandi í postulínsmálun, við Fréttablaðið að þeirri keppni lokinni.

En hvernig er að dansa við jafn ungan herra og Daða Frey?

„Það er bara rosalega kúl að fara bara á gólfið og dansa og mér finnst engu máli skipta hvort dansherrann sé ungur eða ekki. Það er bara yndislegt að dansa óháð því hversu gamall herrann er,“ segir Fanney. „Hann er jafngamall elsta barnabarni mínu og ég er í tímum hjá honum í Dansskólanum Hvönn. Hann er náttúrlega einstaklega góður kennari og mikill fagmaður. Og ef dansarinn er flottur skiptir aldurinn ekki neinu máli.“

Amman dansandi

Fanney segist eiga tvo ömmustráka sem eru sigursælir dansarar, Axel Kvaran og Fannar Kvaran. „Þeir hafa báðir orðið Íslandsmeistarar svo lífið snýst dálítið um dans í fjölskyldunni. Þeir eru bara ánægðir með ömmu sína og þessi uppátæki hjá  kerlingunni og ég segi nú alltaf að ég hafi verið fyrsta dansdaman þeirra,“ segir Fanney og hlær.

„Þeir hafa báðir orðið Íslandsmeistarar svo lífið snýst dálítið um dans í fjölskyldunni, Fannar er 14 ára og var að keppa í Blackpool degi á eftir mér. Axel er í Úkraínu og er kominn mjög langt í greininni. Ég hef alltaf sagt að þeir séu með dansgenin frá ömmu sinni. Ég var fyrsta dansdaman þeirra, kenndi þeim fyrstu sporin en það er ekkert sem ég get kennt þeim núna. Við hjónin fylgjumst ekki að í dansskólann lengur. En ef við erum einhvers staðar þar sem hægt er að dansa þá gerum við það og höfum gaman af.“

Fanney og Daði Freyr sýndu bæði latín og ballroom í Laugardalshöll í byrjun mánaðarins á annars vegar Íslandsmeistaramótinu í suðuramerískum dönsum og hins vegar á bikarmeistaramótinu í ballroom.