Dans­drottningarnar Þór­dís Nadia Semichat og Margrét Erla Maack standa fyrir hönd Kram­hússins í sam­starfi við Sumar­borgina Reykja­vík að fríum úti­dans­tímum í allt sumar. Fyrsti tíminn fer fram í dag á Arnar­hóli klukkan 12.10 þar sem Þór­dís Nadia mun bjóða upp á kennslu í því sem hún kallar Hips don’t lie.

„Hug­myndin að úti­dans­tímunum kom upp í ein­hverju grín­spjalli okkar á milli, eins og gerist svo oft. Á meðan sam­komu­banninu stóð vorum við með ó­keypis dans­tíma á netinu sem vakti mikla lukku. Þetta er smá svona eins og á­fram­hald af því verk­efni. Núna megum við loksins hittast og svo erum við úti þannig að það er minna mál upp á fjar­lægðina milli hvers og eins að gera,“ segir Margrét.

Þær segja þetta vera í raun al­gjört til­rauna­verk­efni en vonast til að tímarnir festi sig fljótt í sessi.

„Já, þetta var í raun ein­mitt fram­hald af því sem við byrjuðum með vegna CO­VID-19. Þá byrjuðum við að hugsa í lausnum, hvernig eigum við að halda á­fram með tímana ef það þarf til dæmis að loka húsinu? Þá kom upp þessi pæling um að við gætum mögu­lega haldið dans­tíma úti við,“ segir Þór­dís Nadia.

Verk­efnið er stutt af Sumar­borginni Reykja­vík og er því þátt­taka í tímunum opin öllum að kostnaðar­lausu.

„Það eru svo margir á landinu og svo er Kram­húsið líka svo mikið mið­borgar­batterí, g-blettur mið­bæjarins þótt það séu líka fleiri örvunar­staðir. Við erum líka hugsa þetta úr frá okkar upp­á­halds­stöðum í borginni. Við byrjum í dag á Arnar­hóli, síðan ætlum við að bjóða upp á afró-dans í Hljóm­skála­garðinum og jóga við Sól­farið,“ segir Margrét.

„Já, við ætlum að nýta rýmin, koma smá lífi í borgina,“ segir Þór­dís Nadia.

Mjaðmirnar ljúga ekki

„Tíminn í dag er hugsaður til að losa um mjaðmirnar. Maður svitnar mikið og tón­listin er alveg ó­trú­lega skemmti­leg. Í lokin tek ég svo djúpar og góðar teygjur fyrir mjaðmirnar. Við gerum alls konar æfingar, þetta er blanda af dancehall, maga­dans, afro-beat, afró og salsa,“ segir Þór­dís Nadia.

„Við veltum því fyrir okkur hve langir tímarnir ættu að vera. Lendingin var að tuttugu mínútur til hálf­tími væri fínt. Þá litar þetta en er ekki að trufla fólk,“ segir Margrét.

Veður­spáin bendir til að það verði sól­ríkt í há­deginu en ekki sér­stak­lega heitt.

„Það er ekki spáð þrjá­tíu stiga hita þannig að fólk getur alveg mætt í drag­tar­jakkanum, tekið tíma og hoppað svo í há­degis­mat með vinnu­fé­lögunum. Við ætlum að vera með morgun­tíma, há­degis­tíma og svo­kallaða „happy hour“ tíma. Um helgar ætlum við að hugsa tímana meira út frá fjöl­skyldu­fólki,“ segir Margrét.

„Það er líka svo frá­bært við þessa tíma, að margir vilja hreyfa sig í há­deginu. Þetta er svo full­komið fyrir fólk sem vinnur inn á skrif­stofu, að komast út í sólina og fá hreyfingu í leiðinni og skemmta sér á meðan. Fengið endorfín og D-víta­mín á sama tíma,“ segir Þór­dís Nadia.

Kram­hús­hlað­borðið

Í sumar verða mörg á­huga­verð nám­skeið í boði í Kram­húsinu.

„Vana­lega förum við í smá dvala yfir sumarið en núna var bara svo mikil vöntun á nám­skeiðum, eftir að fólk mátti loks aftur hittast,“ segir Margrét.

„Við opnuðum í júní og það er nú þegar upp­selt á nokkur nám­skeið. Í sumar verðum við líka með barna- og ung­linga­nám­skeið. Rapp­s­miðju með Kött Grá Pjé og Steinunni Jóns­dóttur, Billi­e Eilish-nám­skeið, hipp­hopp-nám­skeið og Ævin­týra­heim barnanna,“ segir Þór­dís.

Stofnandi Kram­hússins er Haf­dís Árna­dóttir.

„Hún er al­gjör galdra­kona. Allir héldu að hún væri alveg klikkuð á sínum tíma. Hún var að kenna í Leik­listar­skólanum, var með lykla og stalst inn á kvöldin og var með tíma. Svo fann hún þetta ein­staka hús­næði í bak­húsi á Berg­staða­stræti. Hún á­kvað að vera með kennslu í afró­dansi og flutti inn kennara frá Gíneu,“ segir Margrét.

„Við erum að tala um fyrir 35 árum síðan,“ bætir Þór­dís Nadia við.

„Allir sögðu við hana að hún hlyti að vera rugluð. Í dag er hún 81 árs, það var hennar hug­mynd til dæmis að byrja með net­tímana. Hún er svo ó­trú­lega framar­lega í dans­miðlun. Hún er enn­þá að kenna, við höfum báðar farið í tíma hjá henni. Það var ekkert auð­velt,“ segir Margrét.

„Nei, það er sko ekkert grín að fara í tíma til hennar,“ bætir Þór­dís Nadia og þær hlæja báðar.