Sveiflusveit alþýðunnar skipa þeir Freysteinn Gíslason á kontrabassa, Valbjörn Snær Lilliendahl á gítar og Magnús Pálsson á klarínett. Á tónleikunum í sumar verður spiluð hress sveiflutónlist eins og hún gerðist best á millistríðsárunum. Í hléi mun svo Magnús klarínettleikari kenna gestum sveifludansinn Lindy Hop.

„Hann fer yfir létt byrjendaspor sem fólk á öllum aldri getur lært. Þá geta áhorfendur vonandi nýtt sér kennsluna og dansað við tónlistina eftir hlé. Þannig að þetta er meira en bara tónleikar,“ segir kontrabassaleikarinn Freysteinn.

Hann segir að þeir félagar séu nýlega byrjaðir að spila saman undir nafninu Sveiflusveit alþýðunnar.

„Við erum allir reyndir spilarar en Sveiflusveit alþýðunnar er tiltölulega ný. Við Valbjörn gítarleikari höfðum verið að hittast og spila saman og svo fór Magnús að mæta með. Þannig varð sveitin til,“ segir Freysteinn.

Hann segir að ástæðan fyrir að sveiflutónlist hafi orðið fyrir valinu sé einföld. „Þegar maður fær djassbakteríuna eins og sagt er, þá verður ekkert aftur snúið. Hún bara yfirtekur mann oftast og við erum allir með hana. Við höfum allir mikinn áhuga á þessari tónlist.“

Létt fjölskyldustemning

Sveitin stefnir á að halda ferna sveiflutónleika á Óðinstorgi í sumar á vegum Sumarborgarinnar. Fyrstu tónleikarnir eru á dagskrá í dag klukkan 14-16, en Freysteinn segir að mögulega verði að fresta þeim vegna veðurs. Hægt er að fylgjast með því á viðburðasíðu borgarinnar okkar, borginokkar.is eða á Facebook- eða Instagram-síðu Sveiflusveitarinnar.

„Það er gott að fylgja okkur á samfélagsmiðlum til að vita ef við þurfum að breyta um dagsetningar. En þar sem það stefnir á slæmt veður gætum við því miður þurft að fresta fyrstu tónleikunum okkar, en við finnum þá nýja dagsetningu því við ætlum að halda ferna tónleika í sumar. Þeir næstu verða 16. og 30. júlí og þeir síðustu 6. ágúst,“ segir Freysteinn.

„Það er planið að hafa þetta svona létta fjölskyldustemningu. Þannig að mömmur, pabbar, ömmur, afar, börn og bara allir geti komið og haft gaman saman og nýtt þetta nýja og fallega torg.“

Freysteinn segir fleiri tónleika með sveitinni ekki á dagskrá á næstunni. Tónleikarnir fernir á vegum sumarborgarinnar séu bara byrjunin á samstarfi hljómsveitarmeðlimanna.

„Þetta er vonandi byrjunin á einhverju meiru. Við eigum eftir að sjá hvernig þetta þróast. Ef það myndast mikil stemning í kringum þetta er aldrei að vita nema við tökum þetta eitthvað lengra,“ segir hann.

Öll alþýðan velkomin

„Við spiluðum á Lindy Hop-kvöldi núna á þriðjudaginn, en þau eru alltaf haldin annað hvert þriðjudagskvöld á Kex. En Magnús hefur verið viðriðinn Lindy Hop samfélagið á Íslandi. Frumraunin okkar að spila saman fyrir aðra var aftur á móti á hjá Vinstri grænum í Mosfellsbæ. Þá vorum við bara að spila djass.“

Freysteinn segir að hugmyndin að Sveiflusveit alþýðunnar hafi kviknað í kringum þá tónleika og að nafn sveitarinnar sé tilkomið til að undirstrika að allir, öll alþýðan, séu velkomnir á tónleika hjá þeim.

„Okkur langaði að nýta þennan áhuga okkar á sveiflutónlist og áhuga Magnúsar á Lindy Hop og reyna að búa til eitthvað skemmtilegt.“