Fólk

Dans er gleðisprengja

Anna Claessen er framkvæmdastjóri Dansíþróttasambands Íslands. Hún kennir zumba og jallabina í World Class og er á leið með Íslendinga til Marokkó.

Anna Claessen hefur dansað frá unga aldri og kennt bæði eldri sem yngri sporin. Hún segir að dans sé góður bæði andlega og líkamlega. MYND/SIGTRYGGUR ARI

Anna hefur langan feril að baki í dansinum, tíu ár í samkvæmisdansi, 15 ár í djassballett og tískudönsum. Hún hefur kennt zumba hér á landi í fimm ár með hléum frá árinu 2010. Þá hefur hún verið að kenna dans í Vínarborg í Austurríki og Los Angeles. Hún rekur einnig Dans og kúltúr ásamt Friðriki Agna Árnasyni. Það má því með sanni segja að nóg sé að gera hjá henni.

Um þessar mundir er Anna að undirbúa stórt mót, RIG – Reykjavik International Games, (www.rig.is) sem fram fer í Laugardalshöll 27. janúar. Mótið er á vegum ÍBR og margar íþróttagreinar mæta til leiks. „Við eigum ótrúlega mörg glæsileg danspör sem hafa staðið sig frábærlega á mótum. Kristinn Þór Sigurðsson og Lilja Rún Gísladóttir urðu til dæmis í fyrsta sæti í U21 latin í danskeppninni Champions of Tomorrow sem haldin var í Blackpool í Englandi um daginn. Aðrir íslenskir keppendur stóðu sig einnig frábærlega,“ segir Anna sem lifir og hrærist í heimi dansins.

Anna klæðist gjarnan fötum sem passa við þann dans sem hún dansar hverju sinni. MYNDIR/SIGTRYGGUR ARI

Hún segir að dansáhugi á Íslandi hafi vaxið mikið á undanförnum árum. „Það er svo mikið framboð af frábærum dansskólum sem bjóða upp á mismunandi danskennslu og flestir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Dansþættirnir á Stöð 2, Allir geta dansað, höfðu sömuleiðis hvetjandi áhrif á marga. Það eru svo margir að byggja upp skemmtilega dansmenningu hér á landi sem skiptir ótrúlega miklu máli fyrir greinina. Þegar við Friðrik stofnuðum Dans og kúltúr fundum við greinilega fyrir þörfinni að koma með eitthvað nýtt. Það eru alltaf að koma nýir skemmtilegir dansar fram á sjónarsviðið og alltaf hægt að bæta við sig. Á síðunni okkar er hægt að kynna sér alla dansskóla og hvað er í boði hjá þeim. Við héldum til dæmis þrjú danspartí í fyrra þar sem við buðum dansfélögum að koma og vera með. Á einu kvöldi var hægt að kynna alls kyns dansstíla sem eru í boði. Þetta var mjög góð leið fyrir dansfélögin að kynna sig,“ útskýrir Anna.

„Krakkar geta meðal annars fundið skemmtilega break-dansa á meðan eldra fólkið hefur gaman af salsa eða tangó. Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi, þetta er fjölbreyttur heimur. Það er mikil gróska í dansinum þessa dagana og margir iðkendur. Okkur finnst þetta ánægjuleg þróun og viljum fá enn fleiri til að dansa því það veitir svo mikla gleði. Dansinn er góður fyrir okkur andlega og líkamlega. Ég fæ oft að heyra sögur hjá þeim sem stunda zumba og jallabina hvað þetta geri fólki gott og sé algjör gleðisprengja. Dansinn gefur manni mikla orku,“ segir Anna.

Í flamenco klæðist maður eftir menningu og hefðum á Spáni. Sigtryggur Ari

„Fólk á öllum aldri nær ótrúlega vel saman í dansinum. Það verður svo gaman að fara með hóp til Marrakech í Marokkó til að dansa og skoða. Við Friðrik erum bæði með fjölbreyttan dansferil að baki. Hann hefur starfað víða um heim, meðal annars í Ástralíu, Svíþjóð, á Ítalíu og í Dúbaí. Við höfum áður farið í slíkar ferðir til Salou á Spáni sem hafa verið mjög vel heppnaðar.“

Anna segir að fatnaður í dansinum geti verið mjög misjafn. „Það sem er skemmtilegt við dansinn er að fatastíllinn sem hentar honum fer eftir menningu þess lands sem hann kemur frá. Í latíndönsum og dönsum frá suðrænum, heitum löndum er oft léttari fatnaður heldur en í vestrænum dönsum, til dæmis í valsi. Það er mjög gaman að velta fyrir sér hinum ýmsum búningum sem tilheyra dönsum eins og flamenco eða tangó. Kúltúr og dans eiga oft samleið,“ segir Anna. „Þeir sem keppa í dansi þurfa að vera í búningum en þeir sem dansa í frítímanum ráða sjálfir hvers konar fötum þeir klæðast. Skórnir skipta líka máli og er misjafn eftir dönsum. Þegar maður dansar zumba, jallabina, eða hip hop eru íþróttaskór bestir. Í magadansi dansar maður berfættur.“

Dansskórnir eru mismunandi eftir því hvað á að dansa. Sigtryggur Ari

Anna hefur auðvitað safnað að sér óteljandi dansbúningum í gegnum tíðina en segist vera búin að selja þá flesta. „Núna reyni ég að gera mína eigin búninga og stíl. Jallabina er miðausturlenskt dans-fitness þar sem arabískir þjóðdansar og tónlist mæta samhæfðum styrktaræfingum og það er gaman að leyfa sér að klæða sig í þeim anda, til dæmis á sýningum.

Tíska er einstaklingsbundin og það er gaman að fylgjast með í mismunandi löndum hvernig fatakúltúrinn hefur þróast í dansinum. Ég er ekki mikið að spá í tísku almennt en finnst mjög skemmtilegt að gera það í sambandi við dansinn. Í daglegu lífi hentar mér best að vera í þægilegum fatnaði en vil þó vera elegant. Það er ágætt að blanda saman stílum. Ég elska að vera í svörtu og rauðu en reyni að blanda fleiri litum inn í fataskápinn minn.“

Dans og kúltúr er danssamfélag sem er blanda af danskennslu, sýningum og ferðalögum. „Markmið okkar er að sameina mismunandi dansa í landinu. Við höfum meðal annars sýnt á árshátíðum og öðrum viðburðum. Líf mitt snýst um dansinn,“ segir Anna. „Dansgleðin bætir lífsgæðin og fer aldrei frá manni,“ bætir hún við en Anna byrjaði að læra dans aðeins fjögurra ára. „Fólk ætti að senda börnin sín í dansskóla því það bætir samskipti kynjanna og er afar lærdómsríkt. Félagslega er dansinn afar góður. Maður er heldur aldrei of gamall til að byrja að læra dans. Gott er að rækta sjálfan sig í dansinum og svo hafa mörg pör orðið til í dansinum,“ segir Anna og glottir.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Kynningar

Mathöll Höfða opnar á föstudag

Fólk

Lady Gaga steig ó­vænt á stokk

Fólk

Sigga lét blekkjast: „Passið ykkur á þessum síðum“

Auglýsing

Nýjast

Stranger Things stikla: „Erum ekki börn lengur“

Ó­trú­lega stolt en á sama tíma sorg­mædd

Efna til tón­listar­há­tíðar í til­efni 50 ára af­mælis Woodstock

Bóka­dómur: Elsk­endur í út­rýmingar­búðum

Hundar skilja ótrúlega margt

Veisla fyrir hamingjusama hunda

Auglýsing