Matreiðsla Sigurjón Bragi Geirsson varð áttundi í Bocuse d´Or í gær en Danir hrósuðu sigri í þessari virtustu matreiðslukeppni heims, sem yfirleitt er kölluð heimsmeistara keppni einstaklinga matreiðslu. Fjölmargir íslendingar fylgdu Sigurjóni, meðal þeirra var Ólafur Helgi Kristjánsson, eigandi Brasserí Kársnes í Kópavogi.
„Ísland endaði fyrir ofan Bandaríkin og fleiri stórar matarþjóðir og við höldum áfram okkar góða árangri í Bocuse d´Or. Við höfum alltaf endað á topp tíu sem er góður árangur fyrir litla Ísland og sýnir hvað við erum að gera vel í mat hér á landi,“ segir Ólafur.
Hann var meðal stuðningsmanna og í bláu að sjálfsögðu, eins og um hundrað aðrir sem fóru út til Lyon.
„Það voru um fimm þúsund manns að horfa og tryllt stemning. Við vorum í gömlum KSÍ treyjum með KS lógóið framan á sem er helsti bakhjarlinn okkar. Ég keypti trommur fyrir þetta og stökk upp á stól í einhverju rugli til að taka víkingaklappið. Það tók bara öll stúkan undir. Það var helvíti rosalegt. Ég viðurkenni það,“ segir Ólafur.
Hann bjóst við að Norðurlandaþjóðirnar myndu gera vel við sig í kjölfar keppninnar en Norðmenn urðu í öðru sæti og Svíar í því fjórða.
