„Ég gaf út fyrsta lagið mitt í fyrra þannig að þetta er fyrsta platan mín,“ segir Daniil.

Platan heitir 300 og hefur hlotið góðar viðtökur á Spotify en hún er mest spilaða íslenska platan á streymisveitunni þessa dagana. Fimm af lögum plötunnar fóru á topp 10 lista yfir mest spiluðu lögin á landinu sem verður að teljast góður árangur fyrir alls óþekktan tónlistarmann.

Ég sem textana og svo gerir Tommy taktana. Whyrun og Tommy gerðu taktana saman við lagið „Frjósa“. Einnig kemur Floni fyrir á plötunni með Daniil í laginu „Brazy“.

„Ég byrjaði bara að gera tónlist upp á gamanið fyrst og gaf út eitt lag svo fannst mér þetta bara geðveikt. Fólk var mjög mikið að fíla þetta.  Það eru mikið unglingar og fólk sem er inn í hip-hop menningunni sem er að hlusta,“ segir Daniil sem spilar aðallega á skólaböllum um þessar mundir.

„Ég freestyla vanalega allt og skrifa oftast ekkert niður. Brazy með Flóna er til dæmis freestyle.“

Daniil nefnir Travis Scott, Octavian og Skepta sem uppáhalds tónlistarmenn sína ásamt Chief Keef. „Ég hlusta svo mikið á ameríska tónlist þannig að ég nota mikið sömu orðin.“

„Púlla upp á hest, kalla mig kúreki“

Daniil kemur fyrir í nýju lagi rapparans 24/7 „Brauðið“ ásamt Birni og Joey Christ en tónlistamyndabnd við lagið kom út á dögunum og má sjá Danill á hestbaki við Kringlumýrarbrautina.

„Þetta var í fyrsta sinn sem ég var á hesti, ég er aldrei ofaná einhverjum hesti,“ segir Daniil.

En heitirðu Daniil?

Nei, sko ég heiti Daniel. Ég er hálfur Rússi og í Rússlandi er ég alltaf kallaður Daniil, mamma mín er rússnesk,“ segir rapparinn sem heitir í raun Daniel Moroskhin.

Næst tekur við að gera tónlistarmyndband og svo kemur eitthvað meira frá rapparanum unga í desember sem er þó ennþá leyndarmál.