„Minn uppáhalds Bond er Sean Connery. Það er klárt mál. Það er líka gaman að sjá hvernig myndirnar hafa breyst í áranna rás. Fyrstu tvær myndirnar voru til dæmis ekki með neitt titillag,“ segir verslunarstjórinn sem er forfallinn aðdáandi njósnara hennar hátignar.

Spurður um hver sé hans uppáhalds Bond-mynd segir Pétur hlæjandi að það sé erfitt að velja á milli barnanna sinna. „En fyrst ég sagði Connery þá ætla ég að segja From Russia with Love. Hún er sturlað skemmtileg,“ segir Pétur og vísar þar til annarrar myndarinnar um njósnarann með Sean Connery í aðalhlutverki frá 1963.

„En ég get ekki meira eftir þessar nýjustu myndir með Daniel Craig. Þetta er alltaf góð afþreying en ég er bara búinn að fá nóg af hans tilfinningalegu fjölskylduvandamálum. Síðustu myndirnar hafa svolítið einkennst af því, þeir hafa verið að reyna að ná til breiðari hóps og þetta er fín afþreying en ég hef bara séð sumar myndirnar hans einu sinni og það er alveg nóg. Síð­asti Bondinn af gamla skólanum var Pierce Brosnan. Þótt myndirnar hans hafi verið misgóðar og fyrsta klárlega best, þá fannst mér hann góður.

Craig fór sömuleiðis vel af stað og heldur manni við efnið, mér leiðist ekki á myndunum hans en eins og síðasta myndin hans, þetta var góð afþreying en skelfileg Bond-mynd. Við skulum bara orða það þannig að ég get horft á Connery-myndirnar, sumar með Roger Moore, ekki Dalton, Brosnan og sumar Craig aftur og aftur en annað er bara búið. En þetta eru klárlega mikil tímamót, að kvikmyndasería sé orðin 60 ára gömul. Það er náttúrulega bara legendary.“