Breski tónlistarmaðurinn Damon Albarn, sem þekktur er fyrir hljómsveitirnar Blur og Gorillaz, heimsótti Alþingishúsið í dag og var enginn annar sen Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem sýndu honum þingsalinn.

Páll birti færslu á Facebook í dag um heimsóknina sem hefur vakið mikla lukku. Hann segir að heimsfrægar rokkstjörnur séu sjaldséðir gestir á þinginu og hafi Albarn reynst áhugasamari og fróðari Ísland en margir aðrir sem Páll þekkir.

„Ég var að hitta hann í fyrsta sinn. Hann kom hingað í heimsókn ásamt tveimur íslenskum vinum sínum. Ég tók á móti honum, sýndi honum Alþingishúsið og við vorum að rabba um ýmis mál. Hann er mjög áhugasamur um Ísland enda hefur hann verið tengdur Íslandi allar götur síðan 1996 þegar hann kom hingað fyrst,“ segir Páll í samtali við Fréttablaðið. Hann segir spjallið hafa verið einstaklega skemmtilegt og að það hafi verið gaman að fá hann í heimsókn.

Áhugasamur um að gerast íslenskur ríkisborgari

Páll segir að heimsóknin hafi ekki verið skipulögð fyrir fram.

„Þetta var ekki skipulagt. Félagar hans höfðu samband við mig og hittu mig í þinghúsinu. Hann er áhugasamur um að gerast íslenskur ríkisborgari. Hann sagðist hafa heyrt það út undan sér að í sumum tilvikum komi Alþingi að veitingu slíks ríkisborgararéttar,“ segir Páll og bætir við að hann hafi útskýrt fyrir Albarn að hann myndi þurfa að sækja um íslenskan ríkisborgararétt hjá Útlendingastofnun til að byrja með. Það væri undantekning að Alþingi stigi inn í slík mál.

„Ég veit ekki betur en hann sé að sækja um íslenskan ríkisborgararétt hjá Útlendingastofnun. Ef. Útlendingastofnun hafnar erindi þeirra af einhverri ástæðu, þá geta þeir aðilar leitað til Alþingis sem, í undantekningartilvikum, veitir þennan ríkisborgararétt ef sérstakar málsástæður eru fyrir hendi,“ segir Páll.

Aðspurður um gestakomur á Alþingi vegna kórónaveirunnar segir Páll nauðsynlegt fyrir þingmenn að gæta hófs.

„Þau tilmæli sem eru í gildi á Alþingi er að menn takmarki gestakomur, meðal annars gestakomur til nefnda og að það sé ekki verið að bjóða stórum hópum, eins og skólahópum, í þinghúsið.“