Ensk-íslenski tónlistarmaðurinn Damon Albarn hefur beðið stórstjörnuna Taylor Swift afsökunar eftir að hafa fullyrt að hún semdi ekki sína eigin tónlist.

„Ég var mikill aðdáandi þinn þar til ég sá þetta. Ég sem ÖLL lögin mín. Þessi fullyrðing er algjörlega út í loftið og getur valdið mér ótrúlegu tjóni. Þú þarft ekki að hafa gaman af tónlistinni minni en það er virkilega ruglað að þú skulir reyna að draga verkin mín í efa. VÁ,“ svaraði tónlistarkonan fullum hálsi áður en hún bætti við:

„Já meðan ég man, ég skrifaði þetta tíst algjörlega sjálf ef þú varst að velta því fyrir þér.“

Damon segir að viðtal hans við LA Times, þar sem hann lét umrædd ummæli falla, hafi verið tekið úr samhengi.

„Ég tek algjörlega undir með þér. Ég átti samtal um lagasmíðar og því miður var það smættað niður í smellibeitu. Ég biðst fyrirvaralaust og skilyrðislaust afsökunar. Það síðasta sem ég vil gera er að gera lítið úr tónsmíðum þínum. Ég vona að þú skiljir.“

Her aðdáenda og listamanna sem hafa unnið með Taylor Swift komu henni til varnar enda er velt þekkt að söngkonan semur öll sín lög. Hún hefur verið dugleg í gegnum árin að deila myndböndum og heilum heimildarmyndum með aðdáendum sínum sem sýna allt listræna ferlið frá hugmynd til veruleika.

Aaron Dessner, forsprakki The National sem vann með Taylor Swift að plötunum Folklore og Evermore, benti Damon á að hann þekkti greinilega ekki vel til.

„Ég skil ekki alveg hvers vegna Damon Albarn er að reyna að draga í efa hæfni Taylor's sem magnað tónskáld. Ég hef tekið upp lög með henni og get sagt þér að það er ekkert hæft í þessu,“ sagði Aaron Dessner.

Brot úr viðtali LA Times við Damon Albarn.
Mynd: Skjáskot