Í tilefni dagsins býður Grasagarður Reykjavíkur í samstarfi við Flóruvini og Listasafn Íslands/Listasafn Sigurjóns Ólafssonar upp á gönguferð um Laugarnesið. Í göngunni, sem Svavar Skúli Jónsson garðyrkjufræðingur hjá Grasagarðinum leiðir, verða plöntur greindar til tegunda og fjallað um gróður svæðisins.

Það er um að gera að mæta með flórubækur og stækkunargler í gönguna til að fá sem mest út úr henni. Gangan hefst kl. 15 á sunnudaginn við bílastæði Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og er frí.

Áhugaverð plöntuskoðun

Náttúruminjasafn Íslands verður líka með gönguferð um Öskjuhlíðina á sunnudaginn, frá kl. 14-16, þar sem leitað verður að villtum plöntum og þær greindar. Gróðurinn í Öskjuhlíðinni hefur vissulega tekið miklum breytingum á síðustu áratugum og stór svæði tekin undir skógrækt en þó má enn finna staði sem gefa vísbendingu um fyrra gróðurfar, sem gaman er að skoða. Þátttaka er ókeypis og farið verður af stað frá anddyri Perlunnar kl. 14.

Þá verður Vatnajökulsþjóðgarður með fræðslugöngu með landverði í Skaftafelli. Landvörðurinn tekur á móti gestum fyrir framan Skaftafellsstofu klukkan 11.00 á sunnudagsmorgun. Gengið verður um svæðið og helstu plöntur svæðisins grandskoðaðar. Um er að ræða létta göngu sem tekur um einn og hálfan tíma og kostar ekkert. ■