Sá heitir vitaskuld Dagur B. Eggertsson og hefur í dag setið samfellt lengur á stóli borgarstjóra en flokkssystir hans, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, gerði á sínum tíma, en síðar á árinu, þegar fuglsungarnir fæðast í Tjarnarhólmunum, kemst hann líka upp fyrir Davíð Oddsson sem þaulsætnasti borgarstjóri síðustu fimmtíu ára.

Það er nokkuð.

„Þetta er búinn að vera fjölbreyttur og skemmtilegur tími, svo ekki sé meira sagt,“ segir Dagur sem tók við valdataumunum í borginni 16. júní 2014 og átti þá ekkert sérstaklega von á því að vera enn þá borgarstjóri fram á nýjan áratug.

En það gerðist.

„Þessi tímamót eru ljúfsár fyrir mig, altso dagurinn í dag, því ég er að fara fram úr minni helstu fyrirmynd í stjórnmálum hvað valdaskeiðið varðar, en Ingibjörg Sólrún er auðvitað einn allra merkasti borgarstjóri í sögu Reykjavíkur,“ segir Dagur.

Borgarstjórar frá 1908

Og talandi um þá sögu alla, en fyrsti borgarstjórinn í Reykjavík tók til starfa 1908, svo stórt hundrað ára er frá því embættið varð til.

Sá sem reið á vaðið var Páll Einarsson, sýslumaður og bæjarfógeti í Hafnarfirði, en hann gegndi starfanum í sex ár. Við keflinu tók svo Knud Zimsen og gegndi embættinu lengur en nokkur annar maður, í átján ár og tæpa átta mánuði.

Það hálfa er nóg í tilviki Dags.

„Já, níu ár og gott betur,“ reiknast honum til.

En hvað tekur við?

„Ég verð formaður borgarráðs þegar Einar Þorsteinsson tekur við af mér í embætti borgarstjóra – og hvað framhaldið þar á eftir varðar er ég bara ekki búinn að taka ákvörðun um. Ég ætla bara að svara því þegar þar að kemur,“ segir Dagur.

Gríðarlega mikill rekstur

Og hvernig er svo minningin frá öllum þessum tíma, þetta hefur verið at, en varla hefur hann verið að atast í öllu?

„Nei, sannarlega ekki í öllu, enda væri það engum hollt í þessu starfi,“ svarar hann um hæl. „En í gegnum tíðina hef ég kynnst alveg ótrúlega mörgum hliðum á starfsemi borgarinnar og upplifað ótal breytingar og umbætur, svo og samfellda uppbyggingu á vegum borgarinnar og fyrirtækja hennar. Þetta er gríðarlega mikill rekstur og mikilvæg þjónusta,“ segir borgarstjórinn.

Dagur á auka borgarstjórnarfundi um það leyti sem REI-málið var við það að sprengja meirihluta Sjálfsæðis- og Framsóknarflokks 2007 og hann varð í kjölfarið borgarstjóri í 100 daga.
Fréttablaðið/Pjetur

Hvað hefur glatt þig mest?

„Hvað borgin hefur eflst mikið. Og þar hefur umbreyting og þróun borgarinnar í græna og rétta átt skipt sköpum,“ segir Dagur B. Eggertsson í tilefni dagsins.