„Dagsbirtan hefur áhrif á okkur öll og allt líf plöntu og dýra. Við finnum það við árstíðaskiptin og vísindin eru stöðugt að rannsaka áhrif dagsbirtunnar. Niðurstöður hafa sýnt gífurleg áhrif dagsbirtu á hormónaframleiðslu og vítamínupptöku, sem skýrir margar okkar dægursveiflur. Að búa í borg og byggja borg gerir því kröfu um að við tökum sérstakt tillit til gæða dagsbirtunnar,“ segir Anna Sigríður Jóhannsdóttir arkitekt.

Anna hlaut styrk úr Aski – mannvirkjarannsóknarsjóði til að vinna rannsóknina: Áhrif dagsbirtu í íbúðabyggð, allt frá skipulagi til innri íverurýma.

„Við búum við sérstakar aðstæður á Íslandi, með dimmum vetrum og björtum sumrum, en það skortir íslenskar rannsóknir á dagsbirtu því við getum ekki heimfært rannsóknir annars staðar frá þar sem hér eru mjög sérstakar aðstæður vegna lágrar sólarstöðu. Því er nauðsynlegt að leggja meiri áherslu á að tekið sé tillit til stöðu sólar við aðstæður sem Íslendingar búa við, vinna skipulag út frá því og rannsaka áhrif dagsbirtu í byggðu umhverfi á okkar breiddargráðu.“

Sagan skoðuð út frá dagsbirtu

Nauðsynlegt er að byrja rannsóknina á að skoða dagsbirtugæði út frá borgarskipulagi því skipulagið hefur grundvallaráhrif á hvort dagsbirta nái inn í húsin okkar.

„Ef skipulag býður ekki upp á góða dagsbirtu, og sólarljós í göturými og á húshliðar, hefur stærð glugga og gluggasetning í byggingum takmarkað gildi. Þá er sama hvað arkitekt sem vinnur að hönnun bygginga vandar sig við stöðu og stærð glugga; því skíni ekki nægileg birta á bygginguna kemur engin birta inn,“ segir Anna.

Rannsökuð verða margvísleg áhrif dagsbirtu og hvernig við höfum í tímans rás sinnt dagsbirtunni í mótun byggðar.

„Við skoðum viðfangsefnið í sögulegu samhengi og gerum samanburðarrannsóknir á eldri og nýlegum hverfum. Í fyrsta skipulagsuppdrætti Reykjavíkur 1927 voru sterkar áherslur á aðgengi að dagsbirtu í anda Garðborgarstefnunnar. Þær áherslur má sjá í borgarskipulaginu allt fram á seinni hluta 20. aldar. Þá taka við nýjar áherslur; bílaborgin verður allsráðandi og tæknivæðing sem bauð upp á glerjuð stórhýsi. Í borg nútímans er áherslan á þéttingu byggðar sem kallar á nýja hugsun sem er andstæða þeirrar hugsunar sem við höfum alist upp við frá seinni hluta 20. aldar. Þess vegna er nauðsynlegt að horfa lengra til baka í söguna, því okkur finnst fókusinn á margan hátt beinast í ranga átt, frá lífsgæðum þar sem birtan hafði sín góðu áhrif, yfir í byggingamassa sem orðnir eru of stórir og frekir í umhverfinu. Í okkar rannsókn ætlum við því að bera saman eldri byggð við nýrri, veljum svæði á höfuðborgarsvæðinu sem vekja tilefni til vangaveltna um áhrif dagsbirtunnar og gerum rannsóknir á gæðum dagsbirtu og nýtingu hennar á íbúðarsvæðum, sem og magni dagsbirtu sem næst inn í íbúðarrýmin,“ upplýsir Anna.

Byggð á RÚV-reitnum í Efstaleiti-Lágaleiti. Myndin er tekin í mars og sýnir sólríkt leiksvæði við jafndægur. MYND/AÐSEND

Mikil samfélagsleg áhrif

Líf og heilsa hefur grundvallaráhrif ef byggja á vistvæna borg þar sem dagsbirtan er einn lykilþáttanna.

„Gæði dagsbirtu hafa mikil samfélagsleg áhrif. Við skoðum hvernig birtan hefur áhrif á nýtingu útirýma, samneyti íbúa og borgarlíf. Með því að huga að dagsbirtugæðum í skipulagsgerð opnum við fyrir möguleika á mun sjálfbærari orkunotkun bygginga, ekki síður en götulýsingu,“ segir Anna sem í rannsókninni mun gera mælingar á dagsbirtu í formi skuggavarps og sólskinstímagreiningar, ásamt því að leggja mat á umhverfisleg gæði svæða miðað við dagsbirtu á mismunandi árstíma og mismunandi tíma sólarhrings.

„Út frá dagsbirtugæðum verður gerð athugun á notkun og nýtingu svæða. Þá verða gerðir dagsbirtuútreikningar í íbúðarýmum og áhrifavaldar metnir á því hvert vægi skipulagsins og arkitektúrs bygginganna er á dagsbirtugæði innanhúss,“ segir Anna.

Þurfum bæði ljós og yl sólarinnar

Anna Sigríður vinnur rannsóknina í samstarfi við Gunnþóru Ólafsdóttur, mannvistarlandfræðing Ph.D., og Örn Erlendsson, byggingarverkfræðing M.Sc.

„Þátttakendur í verkefninu nýta sína faglega þekkingu til rannsókna í þekktu umhverfi og meta það út frá tæknilegum, samfélagslegum og vistvænum áherslum. Markmiðið er að rannsóknin gefi mynd af því hvernig skipulag og arkitektúr við íslenskar aðstæður hefur áhrif á dagsbirtugæði innan húss og utan, í íbúðabyggð og þar með á lífsgæði íbúa og möguleika á meiri sjálfbærni í orkunotkun heimila. Einnig mun niðurstöðu leitað um áhrif dagsbirtugæða á nýtingu borgarrýma og þar með áhrif á félagsleg tengsl íbúa í sínu nánasta umhverfi,“ segir Anna Sigríður.

Sem arkitekt segist hún fylgjandi þéttingu byggðar en ekki sé sama hvernig hún er gerð.

„Það er vel hægt að þétta byggð og taka tillit til dagsbirtunnar en það hefur alltof oft gleymst á undanförnum árum, eins og við sjáum víða í samanburði á gömlu og nýju. Því vil ég kalla fram hugsunina um hvernig þetta var og hvar okkur líður vel, því á mörgum gömlum svæðum fyllumst við vellíðan vegna þess að þar er nægt ljós sem gefur okkur öryggi og yl. Við búum á þeim stað á hnettinum að við þurfum ekki aðeins birtuna heldur líka ylinn sem sólin gefur. Ef ætlunin er að nýta útirými þarf því að vera bæði sól og skjól. Ekki er heppilegt að taka borgarskipulag frá Suður-Evrópu þar sem fólk leitar í skugga til að kæla sig og byggja sams konar borg á Íslandi. Því er sérstaklega mikil þörf á þessari rannsókn sem tekur algjörlega mið af íslenskum aðstæðum.“ ■