Daði Freyr Pétursson, Eurovisionstjarna og háríkon, skildi í fyrstu ekki íslenska textann við lagið Húsavík.

Lagið sem er flutt í kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga hefur notið nokkurra vinsælda og má segja að það hafi hlotið sjálfstætt líf.

Vinsældir lagsins hafa orðið til þess að fjöldi erlendra söngvara hafa reynt að gera íslenska textanum skil með misjöfnum árangri og hafa margir velt fyrir sér merkingu hans.

Bandaríski miðilinn Vulture ákvað í því ljósi að kalla til Daða Frey og biðja hann um að útskýra textann fyrir erlendum aðdáendum.

Þurfti að gúggla textann

Að sögn Daða hafði hann gaman af myndinni og fannst fyndið að sjá hvernig Eurovision lítur út frá bandarísku sjónarhorni.

Daði viðurkennir hann hafi þurft að finna söngtextann með hjálp Google til að átta sig betur á því hvað sænska söngkonan Molly Sandén hafi sönglað á bjagaðri íslenskunni.

Í myndbandi sem birtist á vef Vulture í gær útskýrir Daði Freyr íslenska textann í laginu og vísunina í Skjálfanda.

Samhliða því tók hann það að sér að útskýra fyrir erlendum áhorfendum að hluti erindisins fari í bága við íslenskar málfræðivenjur. Á það einkum við orðin „í heimabærinn minn.“

Vill ekki þakka álfunum

Í grein Vulture er einnig stiklað á stóru um Eurovision-feril Daða og Gagnamagnsins sem voru, líkt og alþjóð veit, miskunnarlaust rænd því tækifæri að standa á stóra sviðinu í Rotterdam í maí.

Aðspurður hafnar Daði því að góðvild álfa eigi einhvern þátt í velgengni hans.

„Ég hef aldrei beðið álfana um neinn skapaðan hlut og man ekki eftir því að álfar hafi haft nokkur áhrif á líf mitt,“ sagði hann og tók fram að hann væri einmitt staddur nálægt álfaháskóla þessa stundina.

„Þetta er í rauninni grjót en þar búa þeir.“