Ís­lenski Euro­vision-hópurinn hefur nú verið sendur í enn aðra sýna­tökuna fyrir CO­VID-19 en eins og greint var frá fyrr í dag greindist einn úr hópnum með veiruna í morgun. Sá sem greindist er þó ekki í at­riðinu sjálfu og því ljóst að Daði og Gagna­magnið eru ekki smituð.

Allir í hópnum voru bólusettir með bóluefni Janssen þann 5. maí síðastliðinn.

„Gagna­magnið var að fara í sýna­töku aftur og við erum á leiðinni á hótelið til að bíða eftir niður­stöðum,“ segir í færslu Daða Freys á Face­book. Við erum við góða heilsu og krossum fingur að við fáum að koma fram á fimmtu­daginn.“

Engu að síður munu Daði og Gagna­magnið, sem og pólski hópurinn sem er einnig í sótt­kví vegna smits, ekki koma fram á túrkís­bláa dreglinum síðar í dag sem er hluti af opnunar­há­tíðinni. Malta og Rúmenía verða einnig fjar­verandi þar sem þau dvelja á sama hóteli og þeir ís­lensku og pólsku.

Í ljósi smitanna hafa forsvarsmenn keppninnar ákveðið að herða sóttvarnaraðgerðir enn frekar, til að mynda með því að fulltrúar hvers lands mæti í sitt hvoru lagi á opnunarhátíðina í kvöld.

Ó­ljóst er hvað gerist í fram­haldinu en fyrsta skrefið er sýna­taka fyrir allan hópinn. Sam­band evrópskra sjón­varps­stöðva, EBU, munu í kjöl­farið taka á­kvörðun um fram­haldið og hvort Ís­land fái að stíga á svið næst­komandi fimmtu­dag.

Daði og Gagnamagnið munu aftur á móti vissulega keppa í Eurovision hvernig sem fer þar sem upptaka er til af atriðinu.