Daði Guð­björns­son opnar mál­verka­sýninguna Ekkert raskar at­hygli fjallsins í Gallerí Fold í dag, 28. janúar, kl. 14. Sýningin saman­stendur af lands­lags­myndum sem Daði hefur unnið að undan­farin þrjú ár.

„Þegar ég var ungur voru lands­lags­myndir ekki bein­línis í tísku og ég hugsaði með mér; „ég get málað lands­lag þegar ég er orðin gamall, þá er öllum sama.“ Olíu­mál­verk var reyndar ekki vel séð heldur þegar ég var í Myndó handó, það ætti frekar að gera eitt­hvað sem leit út fyrir að vísa til „dýpri sann­leika.“ Mér gekk aldrei vel með þennan djúpa sann­leika, ég fór að mála í svo­lítið villtum stíl sem gekk á­gæt­lega þar til ég fékk leið á til­vistar­vandanum og fór í krúsidúllurnar sem voru ljúfari og á mann­legri skala,“ segir Daði um sýninguna.

Spáin gekk eftir hjá Daða sem hefur á undan­förnum árum byrjað að mála lands­lags­myndir.

„Eitt helsta á­huga­mál mitt er að ganga um náttúru Ís­lands, um grösugar sveitir, dali og fjörur og horfa á fjöllin og jöklana. Það hefur kveikt í mér löngun til að mála lands­lag, ég á­kvað núna að það væri tími komin á að prófa lands­lagið en lofa þó líka ein­hverjum krúsídúllum að vera með, svo þetta verði ekki of djúpt,“ bætir hann við.

Eitt af málverkum Daða á sýningunni.
Mynd/Aðsend

Hann segir fyrir­myndirnar vera raun­veru­legt lands­lag jafnt sem skáldað.

„Ýmist er ég að mála eftir ljós­myndum og stundum er ég að skálda eitt­hvað. Ég á ó­gur­lega erfitt með að hemja mig, verð að fara eitt­hvað út og suður.“

Daði sótti meðal annars inn­blástur fyrir verkin til eld­gosanna við Fagra­dals­fjall og í Merar­dölum.

„Ég fór að minnsta kosti tvisvar að eld­gosunum. Þó ég sé orðinn svona gamall þá hefur maður aldrei komist svona ná­lægt eld­gosi áður. Maður bara fyllist ein­hverri lotningu fyrir náttúrunni að vera svona ná­lægt sköpuninni, mér fannst nú bara eins og Guð al­máttugur væri að búa til eitt­hvað nýtt fyrir okkur,“ segir hann.

Daða eru and­leg mál­efni mjög hug­leikin í listinni og lífinu og í ár stefnir hann á mánaðar­langt ferða­lag til Ind­lands með eigin­konu sinni en þau ætla meðal annars að heim­sækja borgirnar Mumbai, Varanasi og Delí og dvelja í jóga­skóla.

„Þetta náttúr­lega tengist svo­lítið þessari and­legu leit sem hefur verið á­berandi hjá mér um og eftir alda­mótin. Ég er til dæmis að fara til Ind­lands núna, maður átti að gera það þegar maður var ungur. Þegar ég var ungur þá voru allir á leiðinni til Ind­lands,“ segir hann.

Maður bara fyllist ein­hverri lotningu fyrir náttúrunni að vera svona ná­lægt sköpuninni, mér fannst nú bara eins og Guð al­máttugur væri að búa til eitt­hvað nýtt fyrir okkur.