Daði Guðbjörnsson opnar málverkasýninguna Ekkert raskar athygli fjallsins í Gallerí Fold í dag, 28. janúar, kl. 14. Sýningin samanstendur af landslagsmyndum sem Daði hefur unnið að undanfarin þrjú ár.
„Þegar ég var ungur voru landslagsmyndir ekki beinlínis í tísku og ég hugsaði með mér; „ég get málað landslag þegar ég er orðin gamall, þá er öllum sama.“ Olíumálverk var reyndar ekki vel séð heldur þegar ég var í Myndó handó, það ætti frekar að gera eitthvað sem leit út fyrir að vísa til „dýpri sannleika.“ Mér gekk aldrei vel með þennan djúpa sannleika, ég fór að mála í svolítið villtum stíl sem gekk ágætlega þar til ég fékk leið á tilvistarvandanum og fór í krúsidúllurnar sem voru ljúfari og á mannlegri skala,“ segir Daði um sýninguna.
Spáin gekk eftir hjá Daða sem hefur á undanförnum árum byrjað að mála landslagsmyndir.
„Eitt helsta áhugamál mitt er að ganga um náttúru Íslands, um grösugar sveitir, dali og fjörur og horfa á fjöllin og jöklana. Það hefur kveikt í mér löngun til að mála landslag, ég ákvað núna að það væri tími komin á að prófa landslagið en lofa þó líka einhverjum krúsídúllum að vera með, svo þetta verði ekki of djúpt,“ bætir hann við.

Hann segir fyrirmyndirnar vera raunverulegt landslag jafnt sem skáldað.
„Ýmist er ég að mála eftir ljósmyndum og stundum er ég að skálda eitthvað. Ég á ógurlega erfitt með að hemja mig, verð að fara eitthvað út og suður.“
Daði sótti meðal annars innblástur fyrir verkin til eldgosanna við Fagradalsfjall og í Merardölum.
„Ég fór að minnsta kosti tvisvar að eldgosunum. Þó ég sé orðinn svona gamall þá hefur maður aldrei komist svona nálægt eldgosi áður. Maður bara fyllist einhverri lotningu fyrir náttúrunni að vera svona nálægt sköpuninni, mér fannst nú bara eins og Guð almáttugur væri að búa til eitthvað nýtt fyrir okkur,“ segir hann.
Daða eru andleg málefni mjög hugleikin í listinni og lífinu og í ár stefnir hann á mánaðarlangt ferðalag til Indlands með eiginkonu sinni en þau ætla meðal annars að heimsækja borgirnar Mumbai, Varanasi og Delí og dvelja í jógaskóla.
„Þetta náttúrlega tengist svolítið þessari andlegu leit sem hefur verið áberandi hjá mér um og eftir aldamótin. Ég er til dæmis að fara til Indlands núna, maður átti að gera það þegar maður var ungur. Þegar ég var ungur þá voru allir á leiðinni til Indlands,“ segir hann.
Maður bara fyllist einhverri lotningu fyrir náttúrunni að vera svona nálægt sköpuninni, mér fannst nú bara eins og Guð almáttugur væri að búa til eitthvað nýtt fyrir okkur.