RÚV hefur tekið þá ákvörðun að velja Daða Frey og Gagnamagnið til að taka þátt í Eurovision í Rotterdam á næsta ári.

Í tilkynningu frá RÚV er haft eftir Skarphéðni Guðmundssyni dagskrárstjóra að hann sé ánægður með að Daði hafi þegið boðið. Ekkert verður því af Söngvakeppninni á næsta ári.

„Daði sigraði Söngvakeppnina 2020 með yfirburðum og viðtökurnar við íslenska framlaginu hafa aldrei verið svona góðar. Við erum því afar ánægð og stolt af því að geta sent þennan frábæra tónlistarmann og hans fólk út eins og til stóð að gera síðast,“ er haft eftir Skarphéðni.

Eftir að Eurovison var aflýst á þessu ári vegna heimsfaraldurs kórónaveiru tók Samband evrópskra sjónvarpsstöðva þá ákvörðun að þáttökulöndum stæði til boða að senda sama keppanda að ári. Þó þyrftu flytjendur að vera með nýtt lag í keppninni.

Eurovision 2021!
 I’m coming back next year and Gagnamagnið is joining me! So I guess I’m writing another Eurovision...

Posted by Daði Freyr on Friday, October 23, 2020

Með annað stuðlag í pípunum

Daði segist vera afar spenntur fyrir því að standa á Eurovision-sviðinu í Rotterdam.

„Við stefndum alltaf að því að sjá hversu langt við gætum komist í keppninni og það verður eins á næsta ári. Allt Gagnamagnið verður með. Aðalatriðið í þessu er að það verði gaman en ég held að það sé mest gaman að vinna. Nú vona ég bara að það verði haldin alvöru keppni,“ er haft eftir honum í tilkynningu.

Að sögn Daða er hann ekki með tilbúið lag fyrir keppnina en segist vera með nokkrar hugmyndir í kollinum.

„Ég veit reyndar hvernig tónlistarmyndbandið verður og er með nokkur lykilatriði sem þurfa að koma fram í sviðsetningunni, svo ég mun semja lagið í kringum það. Ég mun reyna að semja lag sem passar við atriðið en ekki öfugt, Júró er alveg sér dæmi. En þetta verður stuðlag, það er alveg á hreinu. Allt sem er gaman!“

Eurovision-söngvakeppnin verður í Rotterdam 18., 20. og 22. maí 2021.

Fréttin hefur verið uppfærð.