Stjörnuhjónin Daði Freyr Pétursson og Árný Fjóla Ásmundsdóttir eignuðust sitt annað barn í dag. Daði Freyr deildi fréttunum á Twitter-síðu sinni og skrifaði þar einfaldlega:
„Ég er tveggja barna faðir núna.“
I’m a father of two now
— Daði Freyr 🥑 (@dadimakesmusic) September 18, 2021
Eiga fyrir eina dóttur
Um er að ræða stúlku en fyrir eiga þau dótturina Áróru Björg sem fæddist árið 2019.
Árný Fjóla deildi nýlega mynd á Instagram-síðu sinni komin 40 vikur á leið þar sem hún sagðist vera að stytta biðina eftir fæðingunni með stuttum göngutúrum.
„Mér líður mjög vel, jafnvel betur en síðustu mánuði. Við erum samt tilbúin og spennt að fá þessa bumbustelpu í hendurnar,“ skrifaði Árný.
Skötuhjúin gerðu garðinn frægan með þátttöku sinni í Söngvakeppni sjónvarpsins árið 2017 og kepptu fyrir Íslands hönd í Eurovision 2021 í Rotterdam með laginu 10 Years sem fjallar um tíu ára samband þeirra.