Íslenski tónlistarmaðurinn og Eurovision-farinn Daði Freyr situr í sjötta sæti á árlegum lista Time um tíu bestu lög ársins 2020. Lagið hans Think About Things er eitt af tíu bestu lögum ársins að mati tímaritsins sem lýsir laginu svona:

„Think about Things er bæði fönkað og framúrstefnulegt lag sem maður fær algjörlega á heilann. Hlýlegt og ástúðlegt rafpopp með freskum syntha, grípandi viðlagi og magnaðri bassalínu.“

Óhætt er að segja að Daði Freyr og Gagnamagnið hafi farið sigurför um allan heim eftir að lagið birtist fyrst á veraldarvefnum.

Til stóð að Daði Freyr myndi flytja lagið í Eurovision keppninni í Hollandi á þessu ári en líkt og alþjóð veit var hætt við Eurovision í ár vegna kórónaveirufaraldursins. Íslendingar leyndu ekki vonbrigðum sínum enda höfðu allir helstu veðbankar spáð Íslandi sigri í Eurovision.

En aflýsing Eurovision kom ekki í veg fyrir vaxandi vinsældir lagsins sem fór eins og eldur í sinu um netið og varð „viral“ í veirufaraldri, til að mynda á vinsælasa forritinu TikTok.

Stórstjörnur á borð við James Corden, Pink ogRussel Crowe deildu tónlistarmyndbandinu og lagði var notað í fyrsta þættinum í nýjustu seríunni af Strictly Come Dancing á BBC.

Daði Freyr leyndi ekki ánægju sinni við að komast á topplista Time líkt og má sjá hér að neðan. Af brosköllunum að dæma hefur hann sprungið úr gleði.