Daði Freyr Pétursson, næstum-því-Eurovisionfari og háríkon, gaf í dag út nýtt lag sem ber nafnið Where We Wanna Be.

Um er að ræða ferska lagasmíð frá tónlistarmanninum sem varð stjarna á alnetinu með tilkomu hittarans Think About Things.

Eins og alþjóð veit stóð til að hin nýsteypta þjóðhetja myndi flytja það lag ásamt Gagnamagninu í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í Hollandi í síðustu viku.

Ekkert varð þó af því að þessu sinni og eru sumir á því að 2020 sé árið sem veiran rændi Íslendinga langþráðum sigri í keppninni.

Nýja lagið deilir mörgum einkennum með hittaranum, á borð við grípandi laglínu, retro rafhljóðheim og TikTok-væn dansspor.

Óhætt er að segja að Think About Things hafi náð gríðarmiklum vinsældum víða um heim.

Búið að hlusta á lagið hátt í ellefu milljón sinnum á streymisveitunni Spotify þegar þetta er skrifað og horfa yfir átta milljón sinnum á tónlistarmyndbandið á Youtube.

Er Where We Wanna Be annað lagið sem Daði gefur út frá því að Think About Things skaut honum upp á stjörnuhimininn en á dögunum gaf hann út lag Barnamenningarhátiðar 2020.

Samdi hann það í samstafi við fjórðu bekkinga í grunnskólum Reykjavíkur og byggir textinn á svörum barna um hvernig heimurinn væri ef þau fengju að ráða.