Fyrstu tveir þættirnir af Crownvarpinu, viðhafnarhlaðvarpi Fréttablaðsins um dramaþáttaröðina The Crown frá Netflix, eru komnir á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins.

„Allir virðast vera helteknir af þessum Netflix-þáttum um Elísabetu heitna drottningu og hennar fólk sem óneitanlega vekja forvitni og endalausar spurningar. Rétt eins og konungsfjölskyldan sjálf sem virðist vera nógu bragðgóð til þess að vera alltaf á milli tannanna á fólki,“ segir Þórarinn Þórarinsson blaðamaður á Fréttablaðinu.

„Þannig að við töldum ekki annað hægt en að bryðja þessa fimmtu seríu inn að beini í sérstökum þáttum með aðstoð góðra og sérfróðra gesta,“ segir Þórarinn sem sér um hlaðvarpsþættina ásamt kollega sínum Oddi Ævari Gunnarssyni.

Þegar hér er komið sögu er tíundi áratugurinn runninn upp og fjallað er um atburði sem eru mörgum enn í fersku minni þannig að hvergi skortir umræðuefnin og í fyrsta þætti er farið um víðan völl með enskukennaranum Guðnýju Ósk Laxdal, sem heldur úti Instagram-síðunni RoyalIcelander og er flestum hér á landi fróðari um málefni krúnunnar.

Þórarinn segir þau meðal annars ræða það sem hann kallar vandaða raunveruleikafölsun þáttanna. „Og síðan upplýsir Guðný Ósk hvaða sérkennilega eldsneyti umhverfisvænn Aston Martin konungsins gengur fyrir.“