Ég eignaðist þennan bíl þegar ég var sextán ára gamall árið 1994. Ég var að leita eftir bíl sem gaman væri að gera upp,“ segir Guðmundur sem rakst á Toyota Crown af árgerðinni 1972 á verkstæði í Fellabæ. „Ég fékk hann fyrir förgunargjaldið. Hann var með úrbrædda vél en leit samt vel út miðað við aldur. Hann var síðan dreginn inn í bílskúr þar sem byrjað var að skrúfa og pússa en ætlun mín var að gera hann að fólksbíl sem ég gæti notað eftir að ég næði bílprófinu.“

Guðmundur dundaði sér að mestu sjálfur við bílinn en fékk nokkra aðstoð frá föður sínum. Þeir feðgar höfðu áður gert upp og breytt gömlum Datsun 100A. Sá var settur á jeppagrind og jeppadekk og lukkaðist nokkuð vel. Þar kviknaði raunar hugmyndin sem mörgum árum síðar varð að veruleika með Toyotuna.

„Crowninn dagaði uppi hálf uppgerðan í fjölmörg ár. Ég fór aftur að vinna í honum 2005 þegar sú hugdetta að gera úr honum jeppa hafði skotið upp kollinum en mig langaði að gera enn flottari útfærslu af fólksbílajeppa en Datsuninn var. Ég tók þrjá mánuði í að koma honum í jeppastand, skar úr brettum og setti undir hann stærri dekk. Ég keypti hluti úr gömlum Toyota Foreigner en í grunninn er bíllinn með Toyota Hilux jeppagangverk að mestu. Hann er með vél, gírkassa og hásingar úr Hilux.“ Bíllinn var þó ekki gangfær enn enda vantaði í hann fjöðrun og fleira. Guðmundur tók sér hlé frá bílnum meðan hann byggði eitt hús yfir stækkandi fjölskyldu sína.

„Síðan var það ekki fyrr en 2013 að ég fór að spýta í lófana. Þá smíðaði ég í hann fjöðrun, gangsetti hann og hreyfði út úr bílskúrnum,“ segir Guðmundur sem þurfti að sérsmíða ansi marga hluti í bílinn enda varahlutir af skornum skammti í svo gamlan bíl. „Ég setti mér líka það markmið í upphafi að nota aðeins Toyota varahluti. Ég hef reynt að halda mig við það þó það sé stundum erfitt.“

Í vor tók Guðmundur bílinn og málaði hann og í dag er bíllinn nánast tilbúinn þó einhver frágangur sé eftir að innanverðu. „Í raun er aðeins boddíið af Crowninum. Bíllinn er skráður Toyota Hilux þar sem undirvagninn er úr slíkum. Allt innvolsið, sæti, miðstöð og mælaborð eru síðan úr Toyota Camry.“

Crowninn er hálfgerður sparibíll Guðmundar. „Hann fær alltaf að vera inni í bílskúr en heimilisbíllinn er geymdur úti í snjónum. Hann er svona næstum eins og elsta barnið á heimilinu. Hann er með fornbílaskráningu og ég nota hann aðeins í veiði og fer í ferðir ef veðrið er gott, til dæmis upp í Snæfell eða Kverkfjöll.“

Guðmundur segir bílinn vissulega vekja athygli. „Það kemur alltaf á óvart hvað fólk er að snúa sér við út af honum. Ég er búinn að eiga hann svo lengi að mér finnst útlitið ekkert merkilegt lengur, en sumum finnst þetta hálf furðuleg sjón,“ segir hann glettinn.