Söngkonan Guðný María Arnþórsdóttir sprakk út sem poppstjarna fyrir nokkrum misserum þegar hún fann sína fjöl, rétta tóninn og frægðina á Youtube hvar tónlistarmyndbönd hennar hafa fengið miklu meira áhorf en mörg dægurflugan með lengri feril að baki getur státað af.

Löngu áður en COVID-19 lét á sér kræla hafði Guðný María bókað skemmtistaðinn Gaukinn fyrir páskagula gleðitónleika sem hún hugðist halda að kvöldi laugardagsins fyrir páska. Þess 11. apríl nánar tiltekið.

„Já, þessir tónleikar heita Okkar okkar páskar, eins og lagið mitt sem sló svo eftirminnilega í gegn á Youtube fyrir tveimur árum. „Þetta eru fyrstu tónleikarnir mínir sem eru eins og fyrsti kossinn. Þú veist ekki hvert hann getur leitt þig,“ sagði Guðný í samtali við Fréttablaðið fyrir skömmu.

Veirufælan syngjandi

En í gær kom babb í bátinn þegar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tilkynnti að víðtækt sam­komu­bann tæki gildi á þriðjudaginn og stæði til mánudagsins 13. apríl sem er annar dagur páska.

Tónleikarnir falla því innan samkomubannsins en Guðný María er greinilega þegar með páskasólina í sinni þar sem hún lét það síður en svo setja sig út af laginu þegar Fréttablaðið færði henni, fyrst allra fjölmiðla, fregnir af banninu.

„Þeir frestast þá kannski bara örlítið og verða bara þriðja í páskum eða eitthvað. Tónleikarnir verða. Það verður þá bara sett ný dagsetning á þá,“ svaraði Guðný María að bragði og bætti aðspurð við að sjálf væri hún ekkert hrædd við að smitast af COVID-19.

„Nei, ég er það ekki. Þær vilja ekki sjá mig þessar veirur. Ræðst hún ekki mest á eldri karlmenn? Mér skilst það. Eða þeir hafa farið verr út úr því eða eitthvað, ég veit ekki hvað.“

Guðný ákvað í framhaldinu að höfðu samráði við staðarhaldara á Gauknum að leyfa helginni að líða og taka ákvörðun um hvernig tónleikunum verði bjargað út fyrir endimörk samkomubannsins.

Fer langt á þrjóskunni

„Páskalagið er komið með 122 þúsund spilanir og vinsældir þess sönnuðu fyrir mér að ég væri á réttri leið og að ég ætti að fá að skapa lagið til enda alveg sjálf. Það færi best. Þetta er nokkuð sem ég byrjaði á sem barn en virtist þá ekki mega þetta, en nú fæ ég loksins að lifa og vera Guðný María,“ segir hún.

Lífið og tónlistarferillinn hafa þannig sannfært Guðnýju Maríu um að henni er farsælast að treysta á sjálfa sig og hún segist því vera að læra á djasspíanó í FÍH. „Svo er ég í námsgrein sem heitir Listin og lifibrauðið sem nær utan um flest sem ég þarf að vita um þessa praktísku hluti,“ segir hún og lítur um öxl. Reynslunni ríkari.

„Áður hafði ég farið í tvö stúdíó með miklum látum. Þar vildu tæknimennirnir ráða sjálfir hvernig lögin mín ættu að hljóma og ég þurfti að berjast þar fyrir hverri nótu á meðan ég borgaði þessum mönnum 20 þúsund á tímann. Þegar ég sem lag, þá vil ég fá að ráða hvernig það hljómar. Ég gafst algerlega upp,“ segir Guðný María sem ætlar ekki að láta neitt stoppa sig framvegis. Hvorki veirupestir né hælbíta.