„Núna er Covid stressið búið og bara venjulega stressið eftir,“ sagði Elín Eyþórdóttir við Fréttablaðið eftir að systkinin fengu neikvæðar niðurstöður úr Covid prófi.

Eflaust muna allir eftir því þegar meðlimur í Gagnamagninu greindist með covid sem varð til þess að hópurinn gat ekki komið fram á aðalkvöldinu. Covid reglur eru enn strangar í ár, þó keppendur hafi meira frelsi en síðasta ár að ferðast um Júróþorpið. Allir þurfa að mæta í próf á 72 klst fresti. Íslandshópurinn er nú ásamt öðrum keppendum staddur á opnunarhátið Eurovision.

Systkinin ræddu við Fréttablaðið rétt áður en þau lögðu af stað á hátíðina og vildi þau koma til skila þakklæti sínu í garð íslensku þjóðarinnar og allra stuðningsmanna sinna.

Mikil spenna er í loftinu í Tórínó þar sem íbúar safnast saman fyrir framan sjónvarpsskjái á kaffihúsum að fylgjast með rauða dreglinum, eða öllu heldur túrkis dreglinum.

Systkinin eru smart klædd og persónuleikinn og skilaboðin til stuðnings trans barna, hinsegin réttinda og Úkraínu skín í gegnum klæðnaðinn.

Í kvöld opna klúbbarnir og dagskráin fyrir aðdáendur fer almennilega af stað. Enginn opinber júróklúbbur er í ár ólíkt fyrri árum en djammþyrstir ferðalangar geta þó leitað í hinu ýmsu aðdáendaklúbba í miðbæ Tórínó.

Fréttablaðið er í Tórínó að fylgjast með öllu helsta. Hægt er að fylgjast með ferðablogginu á samfélagsmiðlum Fréttablaðsins.