Þjóðleikhúsið hefur látið þau boð út ganga að í kjölfar samkomubanns, sem tekur gildi á þriðjudag, hafi verið ákveðið að fresta strax öllum sýningum, einnig þeim sem áttu að vera um helgina.

Ekki er ólíklegt að Borgarleikhúsið grípi til svipaðra úrræða en krísufundur um framhaldið næstu daga stendur nú yfir í leikhúsinu. Fréttblaðið hefur þó fengið staðfest í miðasölunni að verkið 9 líf Bubba Morthens verði frumsýnt í kvöld, hvað sem tautar og raular og ákveðið verði að öðru leyti á fundinum.

Óhætt er að tala um sannkallaða stórsýningu en í henni leggjast leikarar, dansarar, tónlistarmenn og fleiri gestir í ákafa leit að „Bubbanum í okkur öllum“ eins og það er orðað í kynningu.

Sýningarinnar um Bubba hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu og viðbrögð gesta á generalprufunni í gærkvöld á samfélagsmiðlum hafa síst verið til þess að slá á spennuna. Sjálfsagt var þó enginn jafn hrifinn og bergnuminn og Bubbi sjálfur en fagnaðaróp Jóns Mýrdals veitingamanns og Boga Ágústssonar fréttamanns á Facebook eru ágæt dæmi um stemninguna.

„Ok ég viðurkenni ég táraðist þetta er magnað leikrit BOBA segi ég og skrifa!“ hrópaði Jón í áttina að Bubba á Facebook eftir frumsýningarrennslið í gær og Bogi tók undir: „Á vart orð til að lýsa hrifningunni, þetta var dásamlegt kvöld og ég þakka auðmjúkur fyrir.“

Þeir sem eiga miða á frumsýninguna í kvöld mega því líklega prísa sig sæla að Bubbi láti ekki COVID-19 hræða sig með sín níu líf frá frumsýningu en hætt er við að fjölmargir aðdáenda hans muni þurfa raflost til þess að takast á við yfirvofandi frestun á sýningum í kjölfar samkomubannsins.

Bubbi Morthens nú er hlé þetta er ROSALEGT. Ég legg varla í seinni hálfleik blóðþrýstingur í botni!

Posted by Jón Mýrdal on Thursday, March 12, 2020