Anna Björk nýtur sín allra best þegar undirbúa á lifandi og skemmtilega viðburði og hefur bæði nýt menntun sína og ástríðu í viðburðarstjórnunina. Anna Björk er með BA í rússnesku og sömuleiðis lauk hún námi í viðburðarstjórnun við Háskólann á Hólum. Aðspurð segist Anna Björk aðaláhugamálið samhliða viðburðarstjórnuninni vera að klára byggja hús fjölskyldunnar og fara í gönguferðir þess á milli.

Hún er með mörg járn í eldinum og er líka í stjórn FKA framtíðar. Hver eru ykkar markmið og áherslur á tímabilinu? „Konur eru konum BESTAR – við viljum styrkja og efla tengslanetið enn frekar. Við viljum líka virkja kanónur til að koma enn frekar inn sem mentorar þannig að við sem yngri erum getum lært af þeim öflugustu.“

Finnst þér þátttaka þín í félaginu FKA framtíðin efla tengslanet þitt og styrkja þig í rekstrinum á þínu fyrirtæki? „100%! Þessi félagsskapur hefur gefið mér meira en orð fá lýst. Ég hef búið til mjög öflugt tengslanet út frá FKA – fengið aukið sjálfstraust og kynnst öflugum konum og lært af þeim.“

Tækifærið til staðar í Covid

Eins fram hefur komið er Anna Björk framkvæmdastjóri og eigandi Eventum sem hún stofnaði á tímum Covid. „Covid kenndi naktri konu að spinna. Ég sá tækifæri þegar hægðist á öllu í Covid og eftir nokkra kaffibolla með konum innan félagsins (FKA) kom alltaf í upp þessi spurning: „Hvers vegna gerir þú ekki eitthvað sjálf?“ Þannig að þá kom að því að velta fyrir sér hvað og raunverulega var það ekki flókið svar því ég ljómaði öll upp þegar ég talaði um viðburði – þannig að viðburðarstjórnun var það heillin.“

Aðspurð segir Anna Björk að það sé brjálað að gera. „Það er allt komið á fullt og mikil uppsöfnuð viðburðarþörf í landinu öllu. Ég mundi ráðleggja fyrirtækjum að vera tímanlega með að plana viðburði því það er hörgull á mannskap og því um að gera að hika ekki heldur henda sér strax í að taka upp símann og hringja í mig.“

Glæsileg dagskrá framundan á Sjómannadaginn

Nú hefur þú verið að undirbúa dagskrá fyrir Sjómannadaginn með Elísabetu Sveins, segðu okkur aðeins frá undirbúningnum, framkvæmdinni og því sem koma skal – dagskránni? „Já, gaman að segja frá því að við Elísabet, sem þekktumst ekkert fyrir þetta verkefni, höfum verið í stöðugu sambandi má segja í átta mánuði við að undirbúa. Það var svo mikil lukka að fá að vinna með henni en við skiptum verkum með okkur þannig að ég sé um viðburðina og hún um markaðs- og kynningarmálin. Okkur hefur gengið fáránlega vel að vinna saman og ég er virkilega stolt af öllu því sem í boði er á deginum sem hefst með lúðrablæstri skipanna í höfninni kl. 11.00. Síðan rekur hver viðburðurinn annan allan daginn og alveg til kl. 17.00.

Stemningin í loftinu fyrir Sjómannadeginum er mikil og allir bíða ofur spenntir að fá að taka þátt. „Stemning er mjög góð enda fyrsta borgarhátíðin eftir Covid og allir til í frábæran fjölskyldudag við höfnina. Mér finnst fólk almennt spennt enda spáir góðu veðri og því ekkert betra en að taka þátt í gleðinni með okkur,“ segir Anna Björk full tilhlökkunar og minnir fólk á að njóta augnabliksins og ekki gleyma því í öllum amstrinu.

Það er hægt að skoða alla dagskránna á Dagskrá á Sjómannadaginn eða Dagskrá dagsins á Sjómannadaginn í borginni