Það er ár liðið síðan Costco byrjaði að selja Astaxanthinið okkar á Íslandi og salan hefur verið miklu meiri en við vonuðumst til,“ segir Orri Björnsson, forstjóri Algalíf, sem er kominn í útrásarstellingar með þörungafæðubótarefni fyrirtækisins í krafti eftirspurnarinnar í Costco í Kauptúni.

Costco á Íslandi tilheyrir Bretlandi á heimskorti Costco og eftir að Orri var kominn inn fyrir þröskuldinn í Garðabæ beindi hann sjónum sínum þangað með þeim árangri að íslenska þörungabætiefnið er nú á leiðinni í hillur breska Costco.

„Við erum búin að vera að vinna í þessu í eitt og hálft ár eða svo og þar sem þetta gekk vel í Costco hérna heima voru þau tilbúin til þess að taka sénsinn í Bretlandi. Við fengum fyrstu pöntunina bara í síðustu viku og ef þetta gengur sæmilega gætu fleiri möguleikar opnast þarna,“ segir íslenski þörungaræktandinn sem að sjálfsögðu þurfti að byrja á því að laga sig að kröfum Costco um mikið magn og stórar umbúðir.

„Jú, jú, það þurfti að stækka þetta allt saman. Þetta er hálfgerð klikkun, stórar umbúðir og stórir pakkar utan um þær og það eru helmingi fleiri hylki í hverri dollu en í þessum venjulegu.“

Silkivegur þörunganna

„Fyrsta skrefið var að komast inn hérna heima og þaðan til Bretlands,“ segir Orri sem er í því sambandi ekki síst spenntur fyrir hinum risastóra Asíumarkaði. „Það eru Costco-búðir í Asíu þar sem neyslan á þessu er miklu, miklu meiri og það er mjög góð byrjun á ferðalaginu þangað að komast inn í Englandi.“

Algalíf var stofnað 2013 og hefur frá upphafi sérhæft sig í ræktun örþörunga sem heita því tilkomumikla og virðulega nafni Haematococcus Pluvialis og astaxanthin, meginuppistaða bætiefnisins, er virka efnið í þeim.

„Astaxanthin er sterkasta andoxunarefnið sem fyrirfinnst í náttúrunni og þörungategundin sem við erum að rækta býr það til,“ segir Orri um efnið sem verndar þörungana gegn útfjólubláum sólargeislum og þykir gera slíkt hið sama fyrir húðina með miklum ágætum. „Efnið endurnýjar frumur og hjálpar fólki meðal annars að halda sér unglegu og heilbrigðu sem mörgum veitir ekki af.“

Í heimsmeistarakeppni

„Salan á astaxanthini er í heildina mjög góð á Íslandi og ég held að við hljótum að vera nálægt heimsmeti í þessu eins og svo mörgu öðru,“ segir Orri og bendir því til stuðnings á að fimm eða sex vörumerki keppi um hylli neytenda.

„Það eru nokkuð mörg vörumerki í gangi og í það minnsta tvö til þrjú þeirra eru örugglega stærri en við. „Það eru tvö fyrirtæki sem framleiða þetta á Íslandi, við og Saga Natura, og síðan er líka verið að flytja þetta inn,“ segir Orri sem lítur, enn sem komið er í það minnsta, á smásöluna sem hálfgerðan hliðarbúskap.

„Við erum í raun og veru fyrst og fremst bændur og ræktum bara þennan þörung sem framleiðir þetta efni og seljum megnið af því bara í heildsölu sem hráefni fyrir aðra. Okkar eigið vörumerki er frekar nýlegt en hefur gengið ágætlega.“