Allsherjar útkall var í Facebook-hópnum Costco gleði á þriðjudaginn þegar vörubrettum með nýrri sendingu AirFryer var rúllað inn á gólf heildsölurisans í Kauptúni. Einn meðlimanna birti meðal annars mynd af kassastæðunni klukkan 13 þegar staflinn teygði sig til lofts og annar sendi mynd klukkan 19 með tilkynningu um að enn væru pottarnir til í Costco þótt heldur hafi gengið á stæðuna á vörubrettinu í millitíðinni.

„Þessi græja virkar og er fljót að spyrjast út og þeir eru við það að klárast,“ sagði Engilbert Arnar, umsjónarmaður Facebook-hópsins og sennilega sá Íslendingur sem næmastan hefur puttann á Costco púlsinum, þegar Fréttablaðið.is forvitnaðist um stöðuna í morgun.

„Ég hélt að þetta væri bölvað drasl og ætlaði aldrei að kaupa þetta en purusteikin hefur aldrei verið betri! Beikonið er krispí og stökkt og frönskurnar líka,“ segir Engilbert sem sér ekki eftir að hafa sigrast á fordómunum.

Gufusuðupottastæðan klukkan 13 á þriðjudaginn og svo aftur sex tímum síðar, klukkan 19 þegar útkall barst um að tækið væri enn til í Costco.
Mynd/Costco gleði

„Þetta styttir eldunartímann, óþarfi að hita ofninn, þetta eyðir minni orku og það verður allt betra í græjunni. Maður sparar líka gasgrillið. Sérstaklega þegar það er vont veður,“ heldur Engilbert áfram og hlær. „Þetta er líka geggjað í hjólhýsi, og bústað. Pulsur hitna alveg í gegn og haldast heitar lengur. Þetta er bara snilld! Maður getur líka bakað í græjunni, steikt egg og fleira. Við notum varla heimilisofninn lengur nema fyrir stærri rétti. Lasagna og fiskrétti.“

Fjörugar umræður sköpuðumst um nýju sendinguna í hópnum á þriðjudaginn þannig að í raun er mest furða að enn sé eitthvað eftir af þessu meinta töfratæki:

Eru ennþá til?????

Enn til kl 16.30. Heilt bretti eftir.

Er þetta sniðugt ?

Frá hvaða plánetu ert þú frá?

Hvaða græja er þetta??

Sæll vinur þú verður að eignast svona fyrir beikonið, steikurnar, kjúklinginn, fiskinn, frönskurnar, naggana, purusteikina, pulsurnar, samlokurnar o.f.l. Þetta er svo mikil snilld, engin olía.

Hvað er í gangi, er þetta bara búið að vera til í allan dag ? Eru Íslendingar búnir að tapa kaupagleðinni?

Var í Costco áðan. Var svona nánast í annarri hvorri kerru hahaha.

Markaðurinn mettur. Það eiga allir og amma hans svona tæki.

Það er komið hjarðónæmi á air fryer markaðinn.

Ég skal viðurkenna að ég hef verið að flissa yfir þessu air fryer æði, en svo fékk ég svona tæki í jólagjöf og þvílík snilld, haha.