Clea Shear­er, einn stjórnandi Net­flix þátta­raðanna „Get Organized with The Home Edit“, greindi frá því í gær að hún hafi greinst með brjósta­krabba­mein. Hún þarf að fara í tvö­falt brjóst­nám vegna þessa.

„Ég er með brjósta­krabba­mein. Það er erfitt að segja frá því en auð­veldara heldur en að halda því leyndu,“ skrifar Clea í færslu á Insta­gram. Hún birti mynd af sér í gær, fimmtu­dag, og sagðist þá vera á leið í tvö­falt brjóst­nám í dag, föstu­dag.

Clea segist hafa fundið fyrir hnút í brjósti í síðustu vikunni í febrúar. Henni gekk illa að fá tíma hjá kven­sjúk­dóma­lækni, jafn­vel eftir að hún sagði frá hnútnum þá gat hún ekki fengið tíma.

Hjá heimilis­lækni fékk Clea brjóst­mynd og í kjöl­farið óm­skoðun. Á­kveðið var að taka hana í þre­falda vef­sýna­töku um leið þar sem stað­fest var að hún var með tvö skæð æxli, hvort um sig sentí­metri á stærð.

Clea ásamt öðrum í frumsýningarpartíi fyrir aðra seríu af Home Edit.
Fréttablaðið/Getty

„En ég fann það snemma,“ skrifar Clea. „Ef ég hefði ekki lagt þetta á mig væri ég í gjör­ó­líkri stöðu núna.“

Gefur krabba­meininu til­gang

Með því að segja frá sinni upp­lifun segir Clea að henni finnist hún vera að gefa krabba­meininu til­gang, að hvetja aðra til að fram­kvæma skoðanir á sjálfum sér og setja heilsu­þarfir fram yfir aðrar skyldur.

Sjálf er Clea undir fer­tugt og ekki með sögu af krabba­meini í fjöl­skyldunni. Hún segir að jafn­vel ef krabba­mein virðist ó­lík­legt þá geti það komið fyrir alla.

„Ég verð að játa að fyrstu dagana þraukaði ég í gegnum „af hverju ég?“ til­finningarnar. En fljót­lega fór ég að hugsa „í hrein­skilni sagt, af hverju EKKI ég?“,“ skrifaði Clea. Hún segist hafa mikinn stuðning, að­gang að góðum úr­ræðum og vett­vang til að vekja at­hygli á mál­efninu.

„Þannig að ef ein­hver þarf að fá brjósta­krabba­mein myndi ég glað­lega taka það á mig,“ skrifaði Clea.