Söngkonan geðþekka Kelly Clarkson, hefur fengið varanlegt nálgunarbann á tvo eltihrella sem herjað hafa á heimili hennar og fjölskyldu undanfarin misseri með tilheyrandi raski og ónæði. TMZ greinir frá
Nálgunarbannið var gefið út síðastliðinn fimmtudag gegn þeim Victor Fernandez og Huguette Nicole Young, en næstu fimm árin er þeim bannað með lögum að hafa samband við Clarkson eða börn hennar. Þá verða þau að halda sig í að minnsta kosti 90 metra fjarlægð frá heimili hennar og fjölskyldu.
Í desember síðastliðnum mætti Fernandez á vörubíl að heimili Clarkson og krafðist þess að hitta söngkonuna en var neitað. Síðan þá hefur hann mætt ótal mörgum sinnum í sömu erindagjörðum. Þá stóðu öryggisverðir Clarkson Fernandez að því að taka myndir af bifreið þar sem börn Clarkson voru innanborðs.
Auk Fernandez hefur Young einnig ónáðað söngkonuna ítrekað síðustu vikur. Að sögn öryggisvarða Clarkson eru þetta meira en átján skipti þar sem Young hefur mætt að heimili Clarkson með bæði gjafir og bréf. Clarkson fékk þá tímabundið nálgunarbann á Young, en þrátt fyrir það hélt hún áfram að mæta.