Bachelorette ofurparið Clare Crawley og Dale Moss eru hætt saman, eftir nokkurra mánaða trúlofun. Bandaríski slúðurmiðillinn Page Six fullyrðir þetta fullum fetum.
Einungis eru fimm mánuðir síðan Dale bað Clare um að trúlofast sér í ótrúlegum upphafsþáttum af Bachelorette seríunni. Heimildarmenn Page Six, sem sagðir eru nánir fyrrverandi parinu, segja hlutina hafa gerst of hratt.
„Það er fullt af vandamálum þeirra á milli. Ég veit ekki hvað varð til þess að þau sprungu en hún vill að hann flytji til Sacramento og hann var ekki spenntur fyrir því. Hún vill börn strax, en ekki hann,“ segir heimildarmaðurinn.
Fram kemur í frétt Page Six að aðdáendur hafi verið farið að gruna að Adam væri ekki lengur í paradís, eftir að parið fór að birta ýmsar dularfullar Instagram færslur.
Þannig hafi hin 39 ára gamla Clare meðal annars birt mynd af sér þar sem hún heldur í hönd móður sinnar. „Hún á góða og slæma daga, eins og við öll. Í dag gat ég ekki falið minn slæma dag. Mamma veit alltaf. Án þess að segja nokkuð, þá teygði hún sig í vasann og gaf mér tissjú og hélt bara í höndina mína.“
Þá deildi Dale færslu þar sem hann vitnaði í trúarrit. „Áætlanir guðs eru stærri en við getum ímyndað okkur,“ skrifaði hann í færslunni. Dale staðfesti síðar í kvöld á Instagram að sambandsslitin hefðu svo sannarlega átt sér stað.

