Franski kvikmyndaleikstjóri Claire Denis verður heiðursgestur RIFF í haust og hlýtur heiðursverðlaun hátíðarinnar fyrir framúrskarandi listræna sýn. Meðal þeirra sem hlotið hafa þá viðurkenningu undanfarin ár eru Mads Mikkelsen, Susanne Bier og Jim Jarmusch.

Claire Denis situr í dómnefnd stuttmynda á Cannes hátíðinni í ár og hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir kvikmyndagerð sína.

Síðasta mynd hennar High Life kom út í fyrra og skartaði þar stjörnum á borð við Robert Pattinson og Juliette Binoche; fékk hún góðar viðtökur um allan heim.

Claire Denis ásamt leikurunum Gloria Obianyo, Claire Tran og Ewan Mitchell.
Getty images

„Það er RIFF mikill heiður að taka á móti Claire Denis og kynna hana fyrir íslenskum áhorfendum og bransafólki. Stefnt er að Claire haldi meistaraspjall en það hefur verið mikilvægur hluti dagskrár undanfarin ár. Þá gefst fólki tækifæri á að tala við hana um hvað það er sem drífur hana áfram og fá innsýn inn í gerð kvikmynda hennar,“ segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF.

Denis er þekkt fyrir áhugaverð sjónarhorn þar sem jaðarhópar og mismunandi menningarheimar fá vægi og rödd sína heyrða.

Líf hennar og bakgrunnur móta drifkraft sagna hennar en hún var alin upp í Afríku til fjórtán ára aldurs. Fyrsta mynd hennar Chocolat fjallar um áhrif nýlendustefnunnar á líf fólks í Vestur-Afríku árið 1950. Fyrir þá mynd hlaut hún tilnefningu til Gull pálmans á Cannes auk César verðlaunanna sem eru ein virtustu verðlaun Frakklands.

Hér fyrir neðan má sjá sýnishorn úr kvikmyndinni High Life.