Breski leikarinn Tom Hiddleston greindi frá því í bandaríska spjallþættinum Late Show með Stephen Colbert að Chris Hemsworth, mótleikari hans í Marvel myndunum, hafi kýlt hann í andlitið í einni töku fyrir fyrstu Avengers myndina.

Hiddleston leikur óþokkann Loka og Hemsworth leikur þrumuguðinn Þór í Marvel myndunum.

„Þú ert alltaf að fara að tapa slagi við Chris Hemsworth,“ sagði leikarinn á léttum nótum í spjalli við Colbert.

„Þannig er það bara,“ bætti við hann.

Um var að ræða slagsmálasenu þar sem Hiddleston var með tæplega 15 kílóa höfuðfat og var því erfitt fyrir hann að „selja“ slaginn. Í kvikmyndum notast leikarar við sviðsbrellur og bardagatækni en kvikmyndavélin er oft næmari en auga áhorfanda í leikhúsi.

Hiddleston var því aldrei nógu ánægður með leik sinn, svo hann bað Hemsworth um að kýla sig í raun og veru.

„Það er hræðileg hugmynd,“ sagði Colbert og hló.

„Ég kollféll á gólfið undir eins,“ sagði þá Hiddleston.