Fyrirsætan og samfélagsmiðlastjarnan Chrissy Teigen gengur nú með sitt þriðja barn, en fyrir á hún þau Lunu og Miles með eiginmanni sínum, söngvaranum John Legend. Leggja þurfti Teigen inn á sjúkrahús í gærkvöldi vegna mikilla blæðinga. Hún er dugleg að deila með fylgjendum sínum upplýsingum um stöðu mála í gegnum Instagram. Hún segir þeim að hafa ekki áhyggjur, hún sé í góðum höndum og umkringd frábærum læknum.

Chrissy segir meðgönguna hafa gengið vel framan af en þegar hún var hálfnuð hafi líðan hennar tekið að versna. Læknar hafa skipað Teigen að taka því rólega. Fyrirsætan deilir með fylgjendum sínum að henni hafi liðið vel allan tímann í gegnum fyrri tvær meðgöngur. Þetta séu því nokkur viðbrigði. Teigen og Legend eiga von á strák í þetta skiptið. Þeim hafði verið tjáð að nánast engar líkur væru á því að þau gætu eignast barn náttúrulega en Luna og Miles fæddust með hjálp glasafrjóvgunar.

Chrissy segir óléttuna hafa því komið nokkuð flatt upp á hana. Hún hafi tekið óléttupróf sem kom út neikvætt áður en hún lét fjarlægja sílikonfyllingar úr brjóstum fyrr á árinu. Síðar hafi komið í ljós að um falska niðurstöðu var að ræða og var fyrirsætan því ófrísk á meðan aðgerðinni stóð.