Leikarinn Chris Pratt, sem er m.a. þekktur fyrir hlutverk sín í þáttunum Parks and Recreation og í Marvel-kvikmyndunum, kvæntist rithöfundinum Katherine Schwarzenegger í gær.

Leikarinn birti fallega mynd af sér með eiginkonu sinni á Instagram, þar sem hann segir að dagurinn í gær hafi verið besti dagur lífs þeirra. Parið trúlofaðist í janúar síðastliðinn.

Faðir Katherine, líkamsræktargoðið, leikarinn og fyrrverandi stjórnmálamaðurinn Arnold Schwarzenegger, fylgdi henni upp að altarinu. Kjóllinn, hlýralaus og gólfsíður hvítur kjóll, var hannaður af ítalska hönnunarrisanum Giorgio Armani. Armani hannaði jafnframt jakkaföt Pratt.

Hjónavígslan fór fram á San Ysidro búgarðinum í Kaliforníu, fimm stjörnu hótel sem parið leigði fyrir helgina. Voru gestir ferjaðir á vettvang í lúxusrútu með skyggðum rúðum.