Banda­ríski sjón­varps­maðurinn Chris Har­ri­son hefur sagt skilið fyrir fullt og allt við raun­veru­leika­þátta­seríuna Bachelor, þar sem hann var kynnir í ní­tján ár. Þetta kemur fram í um­fjöllun Deadline.

Von er á til­kynningu um málið, að því er segir í um­fjöllun miðilsins. Hvorki ABC né Warner Brot­hers hafa sagt múkk um málið en fjórir mánuðir eru síðan að Har­ri­son steig til hliðar eftir eld­fim um­mæli í kjöl­far þess að keppandinn Rachael Kirkconnell var sökuð um ras­isma.

Frétta­blaðið hefur gert því máli ítar­leg skil en Kirkconnell deildi mynd af sér á Insta­gram árið 2018, klædd í búning frá þeim tíma er þræla­hald var enn við lýði í Suður­­ríkjum Banda­­ríkjanna. Matt James, pipar­sveinn, hætti með Kirkconnell í kjöl­farið, en þau eru nú byrjuð aftur saman.

Har­ri­son kom Kirkconnell til varnar í um­deildu við­tali. Í við­tali við Rachel Lindsay, fyrr­verandi Bacher­­lorette, í þættinum Extra varði Har­ri­­son myndina af Kirkconnell og sagði hana ekki eiga skilið að vera dæmda fyrir að hafa farið í veisluna og klætt sig upp með þessum hætti. „Við þurfum að sýna smá vægð, smá skilning, smá sam­úð,“ sagði Har­ri­­son að­­spurður um málið í við­talinu.

Í kjöl­farið var til­kynnt að hann myndi stíga til hliðar, í hið minnsta tíma­bundið. Har­ri­son hefur stýrt þáttunum síðan 2002 en Emmanuel Acho kom inn í hans stað í loka­þætti í síðustu seríu og þótti á­lits­gjöfum Frétta­blaðsins hann standa sig vel í að stýra um­ræðunni þar.

Í frétt Deadline er full­yrt að Har­ri­son hafi gert myndar­legan starfs­loka­samning við ABC. Í um­fjöllun miðilsins kemur fram að Har­ri­son hafi búist við því að fá að taka við stjórn þáttanna að nýju, en ekki hafi verið stemning fyrir því meðal for­svars­manna ABC. Því hafi starfs­loka­samningar í raun ekki verið gerðir í góðu.

Ekki er ljóst hver mun taka við keflinu af Har­ri­son en þess er getið að í bræðra­þáttum Bachelor, Bachelor in Para­dise, hafi banda­ríski leikarinn David Spade verið fenginn til að gesta­stýra þeim þáttum.

Þar eigi að fá stjörnur til að skiptast á um að stýra þáttunum og gæti hið sama verið uppi á teningnum í Bachelor. Þá stýra fyrrum kepp­endurnir Tayshia Adams og Kait­lyn Bristowe nýjustu seríunni af Bachelorette sem hefst í þessari viku.