Mexíkóski skyndibitastaðurinn Chido opnaði í Ægisíðunni fyrr í kvöld og fylltist staðurinn af svöngum Vesturbæingum. Í tilefni opnunarinnar fengu fyrstu 107 gestirnir gefins frían burrito en aðrir réttir voru á helmings afslætti það sem eftir lifði kvölds.

Þetta er þriðji Chido-staðurinn sem er opnaður, en tveir eru nú þegar reknir af íslenskum eigendum, þeim Helga Kristni Halldórssyni og Guðmundi Óskari Pálssyni, í Árhúsum í Danmörku. „Við leggjum áherslu á ferskan, vandaðan og bragðgóðan mat, sérsniðinn að þínum styrkleika og fljóta og framúrskarandi þjónustu,“ segir á Facebook-síðu staðarins.

Chido er staðsett við Ægisíðu 123, þar sem veitingastaðurinn Borðið var áður til húsa. Borðið komst í fréttir eftir að hafa lengi barist fyrir vínveitingaleyfi, en þar sem Ægisíða var ekki skilgreind sem aðalgata í borgarskipulaginu var því í fyrstu hafnað. Loks fékkst leyfið en það var um seinan, en staðnum var lokað í júní í sumar.