Formaður Chelsea-klúbbsins á Íslandi viðurkennir að það sé ansi gott að vera stuðningsmaður klúbbsins þessa dagana, enda Chelsea á toppi deildarinnar og einn úr þeirra röðum, Willum Þór Þórsson, orðinn heilbrigðisráðherra.

Klúbburinn hefur sent frá sér sérstaka tilkynningu þar sem Willum, sem er leikrýnir klúbbsins, eru færðar árnaðaróskir í tilefni af skipan hans í embætti heilbrigðisráðherra.

Karl Henrik Hillers, formaður klúbbsins, segir stuðningsfólk Chelsea hæstánægt með innáskiptinguna og segir þau óska Willum velfarnaðar í starfi, þegnum landsins til góðs.

„Við treystum honum til að skila þessu hlutverki með sóma rétt eins og hlutverki sínu sem leikrýnir,“ segir Karl. Willum hefur mætt í rúm tuttugu ár á aðalfund klúbbsins þar sem horft er á Chelsea-leik í beinni.

„Og fyrir leik, í leikhléi og eftir leik fer hann í gegnum liðsskipan og kerfi og rýnir í andstæðinginn og úrslitin,“ segir Karl.

Hann viðurkennir að það sé ansi gott að vera Chelsea-maður þessa dagana með Chelsea á toppnum og Willum í brúnni.

„Gengið er gott og svo er bara að vona að liðið haldi dampi og að við sleppum við meiðsli og þá hef ég trú á því að við löndum titli eða titlum áður en tímabilið er allt.“