„Við verðum með viðburð í Grósku í dag þar sem við ræðum bókina og hvernig konur af erlendum uppruna eru ónýtt auðlind í íslensku samfélagi,“ segja þær Chanel Björk Sturludóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir, sem ásamt Elínóru Guðmundsdóttur eru ritstjórar bókarinnar. Bókin er gefin út í samstarfi Hennar raddar og Viu útgáfu.

Í dag birtist á vef Fréttablaðsins kynningarmyndband um bókina þar sem spjallað er við nokkrar þeirra kvenna sem þar segja sögu sína. „Hugmyndin er að við séum að gefa fólki smá sýnishorn af bókinni,“ segir Chanel.

Óður til móður

Hugmyndina að bókinni fengu þær Chanel og Elínborg þegar þær stofnuðu Hennar rödd árið 2019. „Hugmyndin að stofnun Hennar raddar kviknaði þegar við ræddum stöðu og sögu mömmu minnar á Íslandi,“ útskýrir Chanel.

Móðir Chanelar, Letetia B. Jonsson, er upprunalega frá Bretlandi og bjó hér á landi um nokkurra ára skeið. „Hún vann sjálf að útgáfu slíkrar bókar um konur á Íslandi en á þeim tíma var ekki nægur áhugi hjá bókaútgáfum og það varð ekkert úr því,“ segir Chanel.

Þær Elínborg vildu halda áfram því starfi. „Svo hafði Elínóra, ritstjóri Via, samband við okkur og var með nákvæmlega sömu hugmynd í kollinum og við ákváðum að sameina krafta okkar,“ segir Chanel.

Safna á Karolina Fund

Þríeykið hyggst gefa bókina út upp á eigin spýtur í nóvember og safnar nú fyrir útgáfunni á Karolina Fund. „Við vildum að ávinningur verkefnisins myndi skila sér aftur út í samfélag kvenna af erlendum uppruna á Íslandi,“ útskýrir Chanel. Ágóðinn mun því renna til fleiri verkefna á vegum Hennar raddar og Viu.

Þær segja slíka bók aldrei hafa átt jafn brýnt erindi, ekki síst í ljósi umræðunnar um rasisma í samfélaginu í kjölfar umdeildrar leitar lögreglu að strokufanga. „Ég held að þessi bók veiti fólki innsýn í líf innflytjenda og persónugeri þá, útskýrir Chanel.

Hún segir rannsóknir benda til þess að innflytjendur standi höllum fæti í íslensku samfélagi. „En þegar þú lest svona tölfræði kemstu ekkert endilega nær því að skilja þessar upplifanir og markmiðið með bókinni er að persónugera það sem við vitum nú þegar í gegnum rannsóknirnar og leyfa fólki að kynnast þessum konum og fagna því sem þær hafa fram að færa.“

Elínborg segir frásagnirnar fjölbreyttar. „Við ræðum hvers vegna þær komu til Íslands en líka um líf þeirra fyrir flutningana. Sögurnar eru eins ólíkar og þær eru margar,“ segir Elínborg sem bætir við að þær hafi rætt við konur um land allt.

Þær stöllur segja áhugann á fólki af erlendum uppruna aukast á hverju ári. „Það er miklu meiri áhugi í dag heldur en til dæmis þegar mamma mín var að vinna að sínu verkefni,“ segir Chanel, sem segir Íslendinga stöðugt verða opnari. „Það auðgar samfélagið okkar að vera með góða þekkingu á mismunandi menningarheimum og reynslu fólks af erlendum uppruna.“