Virginie Viard er frönsk að uppruna og er önnur konan til að gegna stöðu skapandi stjórnandi hjá Chanel-veldinu. Hún hafði starfað lengi við hlið Lagerfeld og hann bar virðingu fyrir störfum hennar. Hún var því verðugur arftaki þegar hann féll frá 2019.

Það eru ekki einungis herrarnir sem klæðast tweed-efnum í haust og vetur því Virginie hefur hannað mjög fallega kvenlínu þar sem tweed er í fyrirrúmi. Meira að segja sviðsmyndin var skreytt tweed þegar haust- og vetrartíska Chanel fyrir 2022-2023 var kynnt í París í síðasta mánuði. Það þykir skemmtilegt hvernig hönnuðurinn blandar fallegum haustlitum í efnin. Fyrst og fremst horfði hún þó til þess tíma þegar Coco Chanel var upp á sitt besta.

Haustlitirnir endurspeglast í þessum fallega klæðnaði.

Rómantík með tweed

Skotland var innblásturinn að haust- og vetrarlínunni en einmitt þar varði Coco Chanel frítíma sínum og nýtti sér landslagið í sköpun sína. Sagt er að Coco hafi tínt blóm og annan gróður til að sýna handverksfólki Chanel réttu litina. Hún dvaldi mikið við ána Tweed sem efnið dregur nafn sitt af. Þarna átti hún rómantískar stundir með elskhuga sínum, hertoganum af Wellington. Jakkar hans sem voru unnir úr tweed eru fyrirmynd hins fræga Chanel blazer-jakka. Sagt er að Coco hafi fyrst uppgötvað þetta frábæra efni þegar hún fékk jakka hertogans yfir axlirnar á löngum gönguferðum um skoskar sveitir. Þá kom upp hugmyndin að tweed-jakka fyrir konur.

Geggjuð kápa frá Chanel fyrir haust og vetur 2022-2023.

Gerði tweed kvenlegt

Virginie Viard lét hafa eftir sér á sýningunni að ekkert væri kynþokkafyllra en að klæðast fötum mannsins sem þú elskar. Hún sagðist vera heilluð af þessu sígilda efni og að það hefði verið Coco Chanel sem gerði tweed kvenlegt. „Að helga þessa sýningu tweed er virðing,“ sagði hún og bætti við að óendanlega samsetningu lita væri að finna í tweed. Glæsilegar dragtir, jakkar, kápur, kjólar og hattar, allt úr tweed, mátti sjá á sýningunni og örugglega margir sem fagna því að efnið sé aftur í hávegum haft. „Sumt fer aldrei úr tísku og Chanel tweed-jakkinn er þar efstur á blaði,“ sagði Virginie.

Tweed dragtirnar frá Chanel eru í mismunandi sniðum og litum.
Hatturinn setur punktinn yfir i-ið.
Svart og hvítt. Margir eru hrifnir af þessari litasamsetningu meðan aðrir vilja frekar sterkari liti.
Svo ekta Chanel mun einhver hugsa. Bleik og ákaflega sparileg dragt.
Stutt kápa með bláum og grænum tónum. Takið eftir háu stígvélunum sem virðast vera að koma aftur. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY