Kanadíska söngkonan Celine Dion tilkynnti í morgun að hún hafi nýlega greinst með taugasjúkdóminn stiff person og neyðist því til að fresta eða hætta við allar sýningar.

Söngkonan sagði frá þeim áskorunum sem hefur fylgt sjúkdómnum í myndbandi á samfélagsmiðlum sem bersýnilega reyndist henni erfitt þar sem hún brast í grát.

„Nýlega greindist ég með sjaldgæfan taugasjúkdóm sem aðeins einn af milljón einstaklinga greinist með,“ segir hún og lýsir einkennunum sem birtast sem krampar og stífni líkamanum.

Þá hefur hún átt erfitt með gang og hamlað hana í að syngja eins og hún er vön.

„Það eina sem ég kann er að syngja,“ sagði hún grátandi. Ég hef gert það alla mína ævi og er það sem elska mest að gera,“ segir hún einlæg.

Í lok myndbandsins kemur fram að hún verði einnig að hætta við tónleikaferð um Evrópu sem átti að hefjast í febrúar. Hún vonast þó til að ná bata með áframhaldandi meðferðum.