Banda­ríski sjón­varp­risinn CBS hefur gert samning við út­gáfu­fé­lagið Stampede Ventures International um gerð glæpa­þátta sem byggðir verða á bókinni Dimmu eftir Ragnar Jónas­son. Deadline greinir frá málinu.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá hefur skáld­saga hins ís­lenska rit­höfundar fagnað góðu gengi er­lendis. Bókin kom meðal annars út í Bret­landi snemma ársins 2018 og voru gagn­rýn­endur stór­hrifnir.

Bókin fylgir eftir rann­sóknar­lög­reglu­konunni Huldu Her­manns­dóttur sem fær ó­vænt gamalt morð­mál í hendurnar skömmu fyrir starfs­lok sín. Hún kemst brátt að því að annað dauðs­fall hefur orðið á svipuðum tíma og að ekki er allt sem sýnist.

Sunday times lýsti aðal­per­sónu bókarinnar meðal annars sem einni af mögnuðustu tragísku kven­sögu­hetjum sam­tíma­glæpa­sagna. Í út­tekt The Guar­dian á bestu nýju glæpa­sögunum segir að Dimma sé „snilldar­lega fléttuð“ og enda­lokin „rosa­leg.“

Í frétt Deadline um nýju þættina kemur fram að hugað sé að því að fram­leiða átta þætti sem byggðir verða á bókinni. Mun fram­leiðslan fara fram í Reykja­vík og mun ís­lenska fram­leiðslu­fyrir­tækið True North koma að fram­leiðslunni.

„Þetta er ein­stakt tæki­færi fyrir CBS Stu­dios að fá að fram­leiða al­þjóð­legt efni með Stampede Ventures,“ er haft eftir Meg­han Lyvers, að­stoðar­for­stjóra CBS.

„Gæða­efni mun alltaf standa upp úr, sama hvaðan það kemur og Dimma endur­speglar það. Við erum mjög spennt fyrir þessu fyrsta verk­efni af mörgum.“