Rapparinn Cardi B er hætt á Instagram í kjölfar þess sem hún segir vera áreiti nettrölla en söngkonan skráði sig á spjöld sögunnar á sunnudagskvöldið þegar hún vann til Grammy verðlauna fyrir bestu rappplötuna, fyrir plötuna sína „Invasion of Privacy“ en hún er fyrsti kvenkyns rappari sem hlýtur viðurkenninguna.

Stuttu áður en hún hætti hélt hún eldræðu á Instagram þar sem hún sagðist vera afar þreytt á ónefndri gagnrýni sem hún hefur fengið, að því er virðist á Instagram, eftir að í ljós kom að hún hafði unnið til verðlaunanna. 

„Það er ekki minn stíll að draga aðra niður til að lyfta einhverjum öðrum upp, það er ekki minn s´till og það er ekki það sem ég er um og ég styð það ekki. Hins vegar hef ég verið að taka mikið af skít í dag og ég er að sjá mikið af rugli í dag og ég sá mikið af skít í gærkvöldi. Ég er dauðþreytt á þessu kjaftæði, ég vann ógeðslega hart að mér fyrir þessa helvítis plötu,“ segir rapparinn en hún fór ítarlega í það hversu erfitt það var fyrir sig að framleiða plötuna en rapparinn var ólétt á meðan framleiðsluferlinu stóð.

„Ég man á síðasta ári þegar ég vann ekki fyrir „Bodak Yellow“ að þá sögðu allir að ég hefði verið sniðgengin. Núna er eitthvað helvítis vandamál? Platan er tvöföld platinum plata og á topplistum allsstaðar. Númer eitt líka. Ég vann rassinn af mér af, læsti mig inn í stúdíói í þrjá mánuði, ólétt. Sum lög komust ekki einu sinni á plötuna af því að ég var með svo stíflað nef útaf óléttunni og ég gat ekki sofið.“