Fyrirsætan og viðskiptakonan geðþekka, Cara Delevingne, stal senunni í konunglegu brúðkaupi í morgun í glæsilegum kjólfötum með pípuhatt. Cara er æskuvinkona brúðarinnar, Eugenie prinsessu og lét sig því að sjálfsögðu ekki vanta er hún gekk að eiga sinn heitt elskaða í morgun. 

Vindasamt var við Winstor kastala í morgun þar sem Eugenie prinsessa, barnabarn Elísabetar drottningar og Jack Brooksbank gengu í það heilaga. Hin ýmsu höfuðföt feyktust því af brúðkaupsgestum eflaust við mikinn fögnuð ljósmyndara sem fönguðu fljúgandi hattana og hlæjandi gestina. 

Sjá einnig: Plastlaust brúðkaup prinsessu handan við hornið

Hatturinn hélst þó fast á sínum stað á höfði Cöru sem gekk hnarreist inn í kapelluna ásamt öðrum gestum. Netverjar hafa margir hverjir lofað klæðnað fyrirsætunnar og sumir hverjir gengið svo langt að segja hana hafa „unnið“ brúðkaupið.