Stundin sem allir ofurhetjuaðdáendur bíða óþreyjufullir eftir nálgast með hverjum deginum sem líður en Marvel birti í dag glænýja stiklu úr Avengers: End Game þar sem örlög hefnendanna og veraldarinnar allar ráðast loksins.

Stiklan gefur vitaskuld ekki margt upp varðandi söguþráð myndarinnar eða hvernig teymið ætlar sér að sigra Thanos en við sjáum þó hetjur sem hafa hingað til látið sig vanta í baráttuna, líkt og Captain Marvel, Hawkeye og Ant-Man.

Þá fara Iron Man, Captain America og Hulk yfir upprunasögu sína og hve langt er liðið frá því þeir stigu fyrst fram á sjónarsviðið. Auk þess sjáum við hetjurnar okkar í nýjum búningum, einhverskonar hvítum búningum, sem mögulega eru ætlaðir til geimferða en það er þó ekki ljóst.

Avengers: End Game kemur í kvikmyndahús hér á landi þann 26. apríl næstkomandi.