Camilla hefur ekki veitt viðtöl í gegnum árin en í tilefni afmælisins voru teknar myndir af henni á eigin herragarði, Raymill, sem hún festi kaup á eftir skilnað við fyrri eiginmann sinn, Andrew Parker Bowles. Húsið stendur skammt frá Highgrove, sem hefur verið heimili Karls prins og seinna þeirra hjóna.

Hertogaynjan var gestaritstjóri á nýjustu útgáfu tímaritsins Country Life og breska sjónvarpsstöðin ITV gerði heimildarþátt um samstarfið sem sýndur var um síðustu helgi. Blaðið fagnar um þessar mundir 125 ára afmæli. Sonur Camillu, Tom Parker Bowles, skrifaði meðal annars í blaðið og birti einn af uppáhaldsréttum móður sinnar.

Fjölskylduveisla

Afmælisveisla var haldin í tilefni dagsins á Highgrove þar sem nánasta fjölskylda var samankomin, þar á meðal sonur Camillu og dóttir, Laura Lopes, sonur hennar auk systur hertogaynjunnar. Camilla var lengi sniðgengin af aðdáendum Díönu prinsessu en almenningsálitið er að breytast enda tekur Camilla nú þátt í meira en 100 góðgerðarsamkomum og lætur til sín taka með ýmis málefni.