Klaus Ortlieb hefur rekið hótelið og gistiheimilið Hlemmur Square um árabil, en reynsla hans af rekstri hótela víða um heim er hins vegar talin í áratugum. „Ég er búinn að vera of lengi í þessu,“ segir Klaus og hlær. „En þetta ástand er ólíkt öllu öðru sem ég hef upplifað.

Þetta COVID er það versta sem dunið hefur á okkur á heimsvísu og þótt Íslendingar hafi staðið sig frábærlega við að hafa hemil á COVID, þá verð ég að segja að nokkuð skorti upp á stuðning við fyrirtækin.

Enginn hefur enn fengið brúarlán til þess að halda rekstrinum gangandi og ég veit ekki hvað,“ segir Klaus og bætir við að á löngum ferli hafi honum lærst að í þrengingum sé mikilvægt að geta hugsað út fyrir rammann.

„Ég reyni alltaf að vera svolítið skapandi og við sjáum til hvað gerist í sumar þótt ég sé ekki mjög bjartsýnn og vonandi fer ríkisstjórnin að gera eitthvað, vegna þess að hún hefur dregist aftur úr. Það er á hreinu.“

Heimsborgin Reykjavík

„Eins og allir vita er lítið um erlenda ferðamenn núna, þannig að við höfum tekið saman pakka fyrir Íslendinga sem hyggja á ferðalög innanlands,“ segir Klaus sem lætur 1.000 krónur af hverri ferðagjöf stjórnvalda sem nýtt er hjá honum, renna til Landspítalans.

„Ég vil styðja við það góða starf sem unnið hefur verið á Landspítalanum við erfiðar aðstæður síðustu mánuði, með því að bjóða íslenskum ferðalöngum að nýta ferðaávísunina upp í gistingu, en fyrir hverja bókun mun Hlemmur Square greiða 1.000 krónur til Landspítalans.

„Ég hef fulla trú á því að fólk sem ætlaði sér að ferðast til útlanda í sumar en getur það ekki vegna ástandsins, geti vel notið þess að eyða einni eða tveimur nóttum í Reykjavík.“

Klaus segir umræðuna um ferðalög innanlands snúast mest um að fá fólk á höfuðborgarsvæðinu til þess að drífa sig út á land, en honum finnist ekki síður tilvalið að nota gjöfina til að beina fólki af landsbyggðinni til Reykjavíkur.

„Tilboðið gildir samt auðvitað fyrir alla. Líka Reykvíkinga,“ segir Klaus og segist vel sjá fyrir sér að í næstu póstnúmerum í kring, sé fólk sem geti vel hugsað sér að snúa baki við uppvaskinu og stressinu heima fyrir og skella sér á hótel yfir eina nótt eða svo.

Klaus segist hafa hrifist sérstaklega af því hvernig heilbrigðisstarfsfólk höndlaði COVID-vandann. „Þannig að ég gef líka öllu heilbrigðisstarfsfólki sem hingað kemur 10% afslátt.“

Alltaf opið

Klaus segist strax hafa ákveðið að halda hótelinu opnu sama á hverju gengi, enda hafi varla annað komið til greina, þar sem einhverjir erlendir ferðamenn hafi orðið strandaglópar á Hlemmi þegar landið lokaði og sumir þeirra búi meira að segja enn á hótelinu.

„Ég ákvað að halda hótelinu opnu og það hefur verið opið hérna í gegnum þetta allt saman. Vegna þess að við vorum enn með gesti frá Bandaríkjunum, Spáni og fleiri löndum sem gátu ekki farið heim og eftir því sem á leið, og þegar upp var staðið, voru margir hérna sem vildu ekkert fara,“ segir Klaus sem að öllu óbreyttu sér fram á að geta helst nýtt hótelherbergin fyrir eftirlegukindur og Íslendinga.

Áhugaverð fjölskylda

„Meira að segja eftir að opnað var fyrir ferðalög til og frá landinu og þau gátu komist heim, þá vildu þau ekki fara,“ heldur Klaus áfram og nefnir sérstaklega bandaríska hótelgesti. „Vegna þess að þeim finnst þau öruggari hérna en í sínu eigin landi.“

Klaus fer ekki leynt með að honum þyki þetta með nokkrum ólíkindum, þótt hann hafi endað á því að bjóða upp á mánaðardvöl á sérverði. „Satt best að segja er fólk hérna ennþá síðan fyrir COVID.

Það voru einhverjir sem áttu að tékka sig út í fyrradag, en ákváðu að framlengja um annan mánuð. Þetta er alveg stórmerkilegt og þetta er orðið eins og lítil fjölskylda sem kemur saman á hverju kvöldi á barnum og fer yfir það sem á daginn hefur drifið hjá þeim. Þetta er mjög áhugavert.“