Þórunn Egilsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, greindi frá því fyrr í mánuðinum að hún hefði greinst með brjóstakrabba og viki því af þingi á meðan hún færi í „harða meðferð gegn því“.

Sjá einnig: Víkur af þingi vegna brjósta­krabba

Þórunn birti mynd af sér í kvöld á Facebook-síðu sinni þar sem má sjá að hún hefur látið raka af sér hárið og er nú með lítinn hanakamb. Undir myndina skrifar Þórunn: „Þessi mætt“.

Þórunn hefur nú hafið meðferð sína og segir í samtali við Fréttablaðið að allt gangi samkvæmt áætlun.

„Það gengur allt samkvæmt áætlun. Ég er búin að fara í eina lyfjameðferð,“ segir Þórunn.

Spurð hvernig meðferðin fari í hana segir Þórunn að hún fari ekkert sérstaklega vel í hana.

„Maður er í þessum rússíbana og hefur litla stjórn á hlutunum. Ég ákvað sjálf að taka hárið í dag. Ég gat þó ráðið því,“ segir Þórunn.

Hún segir að henni finnist ekkert stórmál að missa hárið.

„Þetta er bara hluti af þessu ferli og er tímabundið. Þetta er ekkert risaskref fyrir mig, bara eitthvað sem þurfti að gera,“ segir Þórunn

Þórunn var fjórði varaforseti þingsins og formaður þingflokks Framsóknarflokksins. Hún var fyrst kjörin á þing árið 2013. Willum Þór Þórsson tók við af henni sem formaður þingflokks Framsóknarflokksins.