Sem dragdrottning þarf Skjöldur að nota mikinn farða en hann passar að undirbúa húðina vel áður en farðinn er settur á. Skjöldur segir að þegar mest er að gera hjá honum fari hann í drag allt að fjórum sinnum í viku svo það er mikið álag fyrir húðina. Skjöldur býr í Stavanger í Noregi og starfar auk dragsins sem hárgreiðslumaður. Hann er einnig að fara að hefja störf í Borgarleikhúsi Stavanger við förðun og hárgreiðslu.

„Ég byrja alltaf á að fara í sturtu og nota svo næturkrem frá Rituals sem heitir The Ritual of Namaste Night. Það er feitt og gott fyrir húðina. Ég nota það fimm tímum fyrir drag. Svo nota ég annað krem frá Ritual á eftir. Það er Rituals Body Lotion, það er hugsað fyrir líkamann en ég nota það samt á andlitið því mér finnst það gott andlitskrem. Svo nota ég primer frá NYX og NYX pore filler yfir,“ segir Skjöldur.

Skjöldur hugsar vel um húðina.

Eftir þetta er húðin tilbúin fyrir farðann.

„Ég nota mest farða frá Kryolan. Þetta er leikhúsfarði sem helst vel á fyrir tveggja til þriggja tíma show. Svo nota ég geðveikt mikið af setting spreyi. Þá helst förðunin allt kvöldið,“ útskýrir hann.

„Ég er með rosalega mikinn farða á sýningum en til að ná honum af þá nota ég hreina kókosolíu. Til að ná svona miklum farða af húðinni þá er best að nota olíu á móti olíu, þá fer allt af. Ef ég nota ekki kókosolíu þá finnst mér alltaf eitthvað verða eftir.“

Hefur fundið hvað hentar honum best

Eftir að hafa hreinsað farðann af nuddar Skjöldur exfolitating scrub frá Clinique á húðina og notar svo augnkrem og rakakrem frá sama merki.

„Rakakremið heitir Costume repair moisturiser. Til að finna út hvaða krem henta mér best hef ég bara prófað mig áfram og ég hef smám saman fundið út úr því. Sumt virkar og annað ekki. Ég er orðinn leiður á að kaupa eitthvað sem fólk segir að virki en það virkar ekki fyrir mig. En ég er búinn að finna það núna hvað passar mér mest,“ útskýrir hann.

„En stundum fæ ég svo rosalega þurra húð eftir farðann og þá nota ég bláa Nivea kremið, þetta þykka í áldollunum. Ég maka því á mig og leyfi því að vera í smástund áður en ég ber á mig venjulegt rakakrem. En húðin getur verið mjög viðkvæm eftir drag. Það tekur hana alveg einn til tvo daga að jafna sig. Þess vegna er húðumhirðan mikilvæg fyrir mig.“

Skjöldur segir að hann noti ekki neina sérstaka meðferð á skeggsvæðið að öðru leyti en að hann ber rakakrem á sig, rakar sig svo og ber svo rakakremið aftur á svæðið.

„Þegar skeggið fer að vaxa aftur þá þornar húðin rosalega svo þess vegna þarf ég mjög feitt krem. En annars er það bara sama meðferð á þessu svæði og annars staðar. Að þvo húðina vel og nota gott rakakrem,“ segir hann.

„Svo langar mig að bæta við að stundum finnst mér gott að nota bréfmaska frá Sence sem heitir Let’s go Bananas. Hann frískar vel upp á húðina.“