Hjálmtýr Heiðdal var einn þeirra ellefu íslensku námsmanna sem fóru inn í íslenska sendiráðið í Stokkhólmi 20. apríl 1970, drógu rauðan fána að húni og lýstu yfir að sósíalísk bylting á Íslandi væri nauðsyn.

Hann hefur síðustu þrjú ár, ásamt eiginkonu sinni Önnu Kristínu Kristjánsdóttur og Sigurði Skúlasyni leikara, unnið að heimildarmynd um þá miklu sósíalísku vakningu ungs fólks í Evrópu sem kennd er við 1968. Afraksturinn, Bráðum verður bylting, er frumsýnd í Bíó Paradís í kvöld, en myndin hverfist um sendiráðstökuna, róttækustu aðgerðina í réttindabaráttu íslenskra námsmanna erlendis.

Bráðum verður bylting fangar vel þessa miklu umbrotatíma þegar ungt fólk, innblásið af kommúnisma, gerði byltingu sem óneitanlega breytti heiminum. „Þetta var í allri Evrópu og tengist auðvitað innrás Sovétmanna í Prag 1968,“ segir Hjálmtýr í samtali við Fréttablaðið.

„Þrír straumar fara þá um íslenskt þjóðfélag en eru allir frekar veikir; krafan um aukið lýðræði og opnara samfélag, kvenréttindabaráttan og náttúruverndin. Þegar þetta byrjar er aðeins ein kona á þingi og þeim átti eftir að fjölga hægt.“

Sprengingar og læti

Árið 1970, í kjölfar mikilla efnahagsþrenginga eftir að Síldarævintýrinu lauk, fór mikið fyrir mótmælaaðgerðum og pólitísku andófi í íslensku samfélagi. Tvennt stóð þar upp úr; sendiráðstakan í Stokkhólmi í apríl og sprenging stíflu í Laxá í ágúst.

Annars vegar létu til sín taka róttækir námsmenn og hins vegar róttækir bændur. Á sama tíma gripu konur til róttækari baráttuaðferða fyrir réttindum sínum og Rauðsokkahreyfingin var stofnuð.

Eftir að Hjálmtýr lagði kvikmyndagerð fyrir sig nokkrum árum síðar fór hann strax að huga að gerð heimildarmyndar um sendiráðstökuna enda hefðu heimatökin átt að vera hæg þar sem öll aðgerðin var kvikmynduð.

Illu heilli glataðist filman með sendiráðstökunni eftir að hún hafði verið flutt heim til Íslands. „Hún var geymd í kjallara og eyðilagðist þegar vatn flæddi inn í hann og eftir það lagði ég þetta á hilluna,“ segir Hjálmtýr.

Fyrir fimm árum var það svo einmitt stíflusprenging bændanna við Mývatn sem ýtti við Hjálmtý og hans fólki og vinna við Bráðum verður bylting hófst. „Þá gerist það að Sigurður Skúlason leikari var að horfa á heimildarmyndina um sprengjuna við Mývatn og ákvað að við yrðum að gera mynd um þennan tíma og sendiráðstökuna,“ segir Hjálmtýr.

Þau leituðu víða fanga, innanlands sem utan og í myndinni er rætt við fjölda einstaklinga sem voru virkir í pólitísku andófi áranna 1968 - 1970. Hjálmtýr segir nokkurn tíma hafa farið í að hafa uppi á mönnunum sem voru í sendiráðstökunni. Þá vill einn sem minnst af aðgerðinni vita og tveir eru látnir.

„Þetta voru tveir hópar, annars vegar námsmenn í Gautaborg og hins vegar Uppsölum og foringjar beggja hópa eru látnir en Björn Arnórsson fór fyrir Uppsalamönnum og Arthúr Ólafsson var leiðtoginn í Gautaborg.“ Af þessum ellefu mönnum koma sjö fram í myndinni.

Kveikjan að mótmælunum var gríðarleg gengisfelling krónunnar og óðaverðbólga á Íslandi en við þetta urðu námslán Íslendinga erlendis nánast að engu.

„Við sátum uppi auralítil og eftir ítrekaðar tilraunir og bréfaskriftir SÍNE, Samtaka námsmanna erlendis, sem stjórnvöld svöruðu ekki sendu samtökin út skilaboð um að við yrðum að gera eitthvað sjálf.“ 

Ákveðið var að gera eitthvað sem tekið yrði eftir og Íslendingarnir í Svíþjóð gengu vaskast fram og stormuðu í sendiráðið og námsmenn í Ósló og Kaupmannahöfn fylgdu síðan í kjölfarið. „Og síðan voru námslánin hækkuð,“ segir Hjálmtýr.

Ertu orðinn kótilettukarl?

Í lok myndarinnar koma byltingarsinnuðu maóistarnir saman á kaffihúsi og rifja upp gamla tíma og beinast liggur við að spyrja hvort enn sé í þeim sósíalískur eldmóður. Eða eruð þið orðnir kótilettukarlar, eins og í laginu hans Bjartmars?

„Það heyrist nú alveg á samræðum okkar að menn eru enn vinstrisinnaðir,“ segir Hjálmtýr glaðlega enda eldist þær hugsjónir oftar en ekki illa af fólki.